Enski boltinn

Slæmar fréttir fyrir Liverpool en ekki versta mar­tröðin

Sindri Sverrisson skrifar
Diogo Jota lá óvígur eftir á vellinum í fyrri hálfleik gegn Brentford, vegna hnémeiðsla.
Diogo Jota lá óvígur eftir á vellinum í fyrri hálfleik gegn Brentford, vegna hnémeiðsla. Getty/Justin Setterfield

Leikmenn bættust á meiðslalista Liverpool um helgina þegar liðið vann öruggan 4-1 sigur gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Alvarlegust virtust meiðsli Portúgalans Diogo Jota.

Jota og Curtis Jones þurftu báðir að fara af velli í fyrri hálfleik vegna meiðsla, og bættust þar með í hóp með Thiago, Trent Alexander-Arnold, Dominik Szoboszlai, Alisson Becker og Joel Matip sem ekki tóku þátt í leiknum vegna meiðsla.

Þar að auki var Darwin Nunez tekinn af velli í hálfleik en Jürgen Klopp sagði að þar hefði verið um varúðarráðstöfun að ræða, til að koma í veg fyrir meiðsli.

Jota var hins vegar borinn af velli og sást yfirgefa Anfield á hækjum, með hné í spelku. Óvíst er hve alvarleg meiðslin eru en portúgalska blaðið Record segir að miðað við fyrstu skoðun þá sé EM ekki í hættu hjá Portúgalanum. Áætlað sé að hann verði frá keppni næstu tvo mánuðina.

Miðað við þetta hefur krossband ekki slitnað en það hefði í för með sér endurhæfingu fram á næsta vetur. Þetta þýðir þó að auk þess að missa af úrslitaleiknum við Chelsea í enska deildabikarnum á sunnudaginn þá missir Jota af fjölda mikilvægra leikja í titilslagnum í úrvalsdeildinni, og í Evrópudeildinni.

Klopp sagði Curtis Jones hafa fengið högg neðarlega á legginn, rétt ofan við ökkla. „Við verðum að sjá hvað það þýðir. Þegar Curtis getur ekki spilað þá er eitthvað að því hann leggur allt í sölurnar til að fá að spila,“ sagði Klopp en sagði ekkert óeðlilegt við það að Jones hefði stuðst við hækjur á leið af leikvanginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×