Þar segir að á stöðinni verði öll almenn læknaþjónusta, hjúkrunarmóttaka, meðgönguvernd, ung- og smábarnavernd auk annarrar þjónustu fyrir íbúa á Akureyri og nærsveitarfélög. Húsnæðið er sérhannað sem heilsugæslustöð, en umfangsmiklar endurbætur og uppbyggingar hafa staðið yfir í tæp tvö ár.
„Þetta er langþráð breyting og mikilvæg tímamót,“ segir Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir á heilsugæslunni á Akureyri. „Í rúm fjörutíu ár hefur heilsugæslustöðin verið í ófullnægjandi húsnæði með erfiðri aðkomu en opnar núna í sérhönnuðu húsnæði með þægilegri og til muna betri aðkomu fyrir okkar skjólstæðinga. Starfsemin verður öll á einni hæð sem gefur mikil tækifæri fyrir starfsfólk til að bæta þjónustuna með aukinni þverfaglegri samvinnu.“
„Það er okkur öllum mikið ánægjuefni og tilhlökkun að flytja í nýtt fallegt húsnæði,“ segir Inga Lára Símonardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni á Akureyri.
„Spennandi tímar eru framundan og þetta gefur okkur mikil tækifæri til að þróa þjónustuna enn frekar til hagsbóta fyrir okkar skjólstæðinga.. Við á heilsugæslunni óskum starfsmönnum og skjólstæðingum okkar til hamingju með þennan langþráða áfanga.“
Vegna flutninga yfir á nýja heilsugæslustöð verður þjónusta heilsugæslunnar í Hafnarstræti takmörkuð dagana 14. til 16. febrúar, nema bráðaþjónusta sem áfram verður sinnt að fullu í Hafnarstræti til og með 18. febrúar. Beðist er velvirðingar á óþægindum vegna þessa, að því er segir í tilkynningunni.