Enski boltinn

Aston Villa missir lykilmann út tíma­bilið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kamara haltraði af velli á 65. mínútu.
Kamara haltraði af velli á 65. mínútu. Catherine Ivill/Getty Images

Aston Villa hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu og aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum. Enn versna vandræðin en miðjumaður liðsins, Boubacar Kamara, sleit krossband og verður frá út tímabilið. 

Atvikið átti sér stað í 2-1 tapi gegn Manchester United í gær. Kamara haltraði þá af velli og Moussa Diaby kom inn í hans stað. Kamara fór svo í myndatökur í dag sem staðfestu krossbandsslit.  Reiknað er með því að hann verði frá keppni í fimm til sex mánuði, fram yfir Evrópumótið í Þýskalandi í sumar. 

Kamara er 24 ára franskur landsliðsmaður, hann hefur spilað 30 leiki í öllum keppnum fyrir Aston Villa á þessu tímabili, skorað eitt mark og gefið eina stoðsendingu. Hann er þriðji Villa maðurinn á eftir Emi Buendia og Tyrone Mings sem slítur krossband á skömmum tíma. Varnarmaðurinn Ezri Konsa er einnig meiddur á hné en mun snúa aftur í þessum mánuði. 

Kamara hefur verið algjör lykilmaður fyrir Aston Villa á þessu tímabili og leyst hlutverk sitt vel sem djúpliggjandi miðjumaður. Liðið berst um sæti í Meistaradeildinni og situr sem stendur í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×