Ríki eru eins og einstaklingar dæmd af því sem þau gera. Eins og staðan er í dag hafa íslensk stjórnvöld - þar til bærir aðilar - veitt landvist og loforð um skjól, fólki sem býr við stöðuga lífsógn á Gaza, þar sem stórtækustu ofbeldisaðgerðir í langan aldur hafa átt sér stað undanfarna mánuði. Þar af eru 72 börn. Nokkur þeirra barna sem fengu þetta skjól hafa þegar látið lífið í sprengjuregni Ísraels sem hefur lagt Gaza svæðið í rúst.
Þessi börn búa við hungur, þau búa við ótta, þau búa við hörmungar sem við hér á þessu friðsæla landi getum varla ímyndað okkur. Þess vegna var það lágmarksviðbragð hjá okkur sem ríki að veita þessum börnum skjól, þar sem strangar innflytjendareglur okkar heimiluðu það í nafni fjölskyldusameiningar. Þau eiga að fá að sameinast sínu fólki sem hefur búið hér á landi að undanförnu og fengið hér skjól.
En við höfum ekki klárað málið. Það er ekki auðvelt fyrir þetta fólk að komast hjálparlaust frá Gaza og án efa útilokað fyrir börn. Þess vegna er loforð okkar um skjól ómarktækt nema því fylgi stuðningur til að koma þessu fólki út og til Íslands.
Ýmsum hefur orðið tíðrætt um að innviðir landsins séu sprungnir, en ég fullyrði - sé eitthvað til í því - að það er ekki út af fólki af hinu stríðshrjáða Gaza. Íslendingum hefur að undanförnu fjölgað um ca. 1000 manns á mánuði. Ég fullyrði að 100 manns til viðbótar frá Gaza, þar af 72 börn, munu ekki verða kornið sem fyllir mælinn.
Við sem ríki viljum leggja okkar af mörkum til að lina þjáningar og leggja lið, þjáðum og þeim sem eru í lífshættu. Það eru orðin tóm ef ekki fylgja aðgerðir. Það er því skylda okkar, viljum við teljast marktækt ríki, að bjarga þessu fólki út af Gaza með þeim leiðum sem okkur eru færar. Þrjár konur hafa sýnt að það er hægt. Ég treysti því að utanríkisþjónusta Íslands, sem hefur á að skipa reynslumiklu og mjög hæfu starfsfólki klári málið.
Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.