Körfubolti

Kíkti í keilu með Hetti: „Allir ó­vinir Gísla Marteins halda að þeir séu góðir í keilu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andri Már Eggertsson, Nablinn, tók stöðuna á Hattarmönnum í Keiluhöllinni eftir að leik þeirra gegn Keflavík var frestað.
Andri Már Eggertsson, Nablinn, tók stöðuna á Hattarmönnum í Keiluhöllinni eftir að leik þeirra gegn Keflavík var frestað. Vísir/Stöð2 Sport

Liðsmenn Hattar frá Egilsstöðum þurftu að finna sér eitthvað annað að gera í höfuðborginni síðastliðið fimmtudagskvöld eftir að leik þeirra gegn Keflavík í Subway-deild karla var frestað. Þeir ákváðu því að skella sér í keilu til að stytta sér stundir.

Leik Keflavíkur og Hattar var frestað vegna hitavatnsleysis í Keflavík eftir að hraun flæddi yfir hitavatnslögn bæjarins og skemmdi hana. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, hefði viljað spila leikinn fyrst lið hans var komið suður alla leið frá Egilsstöðum og sagði að sínir menn gætu alveg eins farið í sturtu annars staðar.

Viðari varð þó ekki að ósk sinni og því var ákveðið að gera gott úr ferðinni og skella sér í keilu. Andri Már Eggertsson, eða Nablinn eins og hann er oft kallaður, fékk að fljóta með og fylgjast með hópefli Hattarmanna.

„Allir óvinir Gísla Marteins halda að þeir séu góðir í keilu, hvernig ert þú?“ var fyrsta spurning Nablans til Viðars, og var hann þá að vísa í viðtal við Viðar þar sem hann bölvaði Gísla Marteini á sumardekkjunum eftir að hans lið mætti seint í leik gegn Þór Þorlákshöfn vegna snjóþunga á suðurlandinu. Viðar lét þó ekki slá sig út af laginu.

„Góður í keilu,“ svaraði Viðar einfaldlega og hló.

Viðar stóð svo á endanum við stóru orðin og stóð uppi sem sigurvegari í A-riðli þeirra Hattarmanna. Sæþór Elmar Kristjánsson stóð uppi sem sigurvegari í B-riðli og endaði með mun fleiri stig en Viðar. Hann sakaði þjálfarann sinn því um að brögð væru í tafli, en þetta skemmtilega innslag má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Nablinn í keilu með Hetti



Fleiri fréttir

Sjá meira


×