Körfubolti

„Hann breytir eigin­lega öllu fyrir þetta lið“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Josh Jefferson er hér með boltann og sækir á Ægir Örn Steinarsson leikmann Stjörnunnar.
Josh Jefferson er hér með boltann og sækir á Ægir Örn Steinarsson leikmann Stjörnunnar. Vísir/Bára Dröfn

Valsmaðurinn Josh Jefferson meiddist í leik Vals og Hauka. Í þættinum Subway Körfuboltakvöld var atvikið skoðað en atvikið leit ekki vel út og gæti Jefferson verið lengi frá.

Valur vann Hauka í Subway-deild karla á fimmtudagskvöldið en Valsmenn eru með örugga forystu á toppi deildarinnar. Bandaríkjamaðurinn Josh Jefferson meiddist hins vegar á hné í leiknum og virtist sárþjáður þegar hann var studdur af velli.

Í þættinum Subway Körfuboltakvöld undir stjórn Stefáns Árna Pálssonar fór Stefán yfir málið ásamt sérfræðingunum Teiti Örlygssyni og Ómari Erni Sævarssyni.

„Þetta er alltaf jafn ömurlegt þegar maður sér mann meiðast, hvaða leikmann sem er. Ég er hræddur um að þetta séu liðbanda- eða krossbandameiðsli. Hann er ekkert að fara að spila á næstunni held ég því manni sýnist löppin stoppa á gólfinu og fara í einhverja óeðlilega hreyfingu,“ sagði Teitur en hann gat ekki horft þegar atvikið var sýnt á skjánum.

Ómar sagði atvikið vera eitt það stærsta á tímabilinu hingað til.

„Ef Valur er að fara að missa þennan leikmann. Hann breytir eiginlega öllu fyrir þetta lið og sérstaklega þegar Kári er ekki,“ en Kári Jónsson er meiddur og ólíklegt að hann verði meira með á tímabilinu.

„Hann er eiginlega sá eini í Valsliðinu sem getur skapað yfirtölu og það er ekkert betra lið í deildinni betra að nýta sér það heldur en Valur,“ bætti Ómar við.

Alla umræðu þeirra Stefáns Árna, Teits og Ómars má sjá í spilaranum hér fyrir neðan þar sem þeir ræddu meðal annars aukna ábyrgð Ástþórs Ægis Svalasonar í Valsliðinu.

Klippa: Körfuboltakvöld: Meiðsli Josh jefferson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×