Fótbolti

Bæði lið án nokkurra lykil­manna í toppslagnum í Þýska­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lið þeirra mætast í stórleik helgarinnar í Þýskalandi.
Lið þeirra mætast í stórleik helgarinnar í Þýskalandi. Lars Baron/Getty Images

Hið taplausa lið Bayer Leverkusen tekur á móti Bayern München, liðinu sem hefur unnið þýsku deildina undanfarin 11 tímabil. Leikurinn er sýndur beint á Vodafone Sport en það eru þó nokkrir sterkir leikmenn sem verða hvergi sjáanlegir þar sem þeir eru á meiðslalistanum fræga.

Xabi Alonso er einn heitasti þjálfari Evrópu um þessar mundir en árangur hans með Leverkusen hefur verið hreint út sagt ótrúlegur. Liðið er sem stendur enn án taps í þýsku deildinni en Thomas Tuchel og lærisveinar hans í Bayern fara á toppinn með sigri.

Heimamenn í Leverkusen eru án þriggja sterkra leikmanna. Argentíski miðjumaðurinn Exequiel Palacios er frá keppni um þessar mundir vegna meiðsla.

Nígeríski framherjinn Victor Boniface hefur verið frábær það sem af er tímabili, með 10 mörk og 7 stoðsendingar í 16 leikjum. Hann er hins vegar einnig að glíma við meiðsli og verður ekki með á morgun.

Odilon Kossounou verður ekki með heldur þar sem hann er staddur á Afríkukeppninni með Fílabeinströndinni. Leikur þjóðin um bronsið gegn Nígeríu á sunnudaginn.

Bæjarar eru sömuleiðis án fjölda leikmanna en hinn eldsnöggi Alphonso Davies er meiddur sem og þeir Serge Gnabry, Kingsley Coman, Konrad Laimer og Bouna Sarr.

Stórleikur helgarinnar í Þýskalandi hefst klukkan 17.30 og er sýndur beint á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×