Fótbolti

Messi líður betur en lofar engu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi þurfti að svara fyrir það á blaðamannafundi af hverju hann spilaði ekki í leiknum í Hong Kong.
Lionel Messi þurfti að svara fyrir það á blaðamannafundi af hverju hann spilaði ekki í leiknum í Hong Kong. Getty/Stephen Law

Lionel Messi og Inter Miami sigla nú mikinn ólgusjó eftir að Messi spilaði ekki í æfingaleik liðsins í Hong Kong um helgina.

Fólk sem keypti rándýra miða á leikinn var allt annað en sátt með að missa af möguleikanum á því að sjá Messi spila.

Hann sat allan tímann á bekknum ásamt fleiri stjörnum liðsins. Fjörutíu þúsund manns höfðu keypt miða á leikinn og bauluðu á Messi og David Beckham er þau komust að því að Messi yrði ekkert með.

Íþróttamálaráðherra Hong Kong gagnrýndi líka að Messi hafi ekkert komið við sögu og hótaði að draga til baka hluta af styrkjunum sem skipuleggjendur leiksins fengu vegna komu bandaríska félagsins.

Inter er nú komið til Japan þar sem liðið spilar við Vissel Kobe í vikunni. Messi mætti á blaðamannafund fyrir leikinn. ESPN segir frá.

„Ég veit ekki hvort ég geti spilað en mér líður betur og ég vil endilega spila þennan leik,“ sagði Lionel Messi. Hann meiddist í leik í Sádi Arabíu og er að glíma við tognun aftan í læri.

„Ég missti af síðasta leik í Hong Kong vegna óþæginda í vöðva. Mig langaði virkilega að spila af því að það komu svo margir til að horfa á leikinn en svona er þetta stundum,“ sagði Messi.

„Það var leiðinlegt að ég gat ekki spilað leikinn en það getur alltaf gerst. Ég vil alltaf spila og sérstaklega í þessum leikjum sem við ferðumst svo langt fyrir. Ég vona að við getum farið aftur til Hong Kong og spilað þar leik,“ sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×