Eftir að kjarnaofn sprakk í Tsjernobyl-kjarnorkuverinu við borgina Pripyat í Sovétríkjunum þann 26. apríl árið 1986 þurftu 116 þúsund íbúar að yfirgefa borgina vegna hættunnar sem stafaði af geislavirkni frá verinu.
Um 36 klukkutímum eftir slysið var búið til bannsvæði í 30 kílómetra radíus frá Tsjernobyl sem fólk mátti ekki fara inn í vegna krabbameinsvaldandi geislunarinnar.
Íbúar hafa ekki enn snúið aftur á bannsvæðið, sem er um 2.600 fermetrar að stærð, vegna mikillar geislunar sem þar er, þó vísindamenn hafi rannsakað svæðið og ferðamenn fengið að ferðast um það frá 2011.
Hins vegar hafa villt dýr á borð við úlfa, birni, hesta og villisvín lifað þar góðu lífi. Nú virðist sem vera dýranna innan svæðisins hafi haft óvenjuleg og ófyrirséð áhrif á þau.
Úlfarnir orðið fyrir mikilli geislun
Hópur vísindamanna undir forystu Dr. Cöru Love, þróunarlíffræðings við Shane Campbell Staton-rannsóknarstofuna við Princeton-háskóla, hefur rannsakað hvernig úlfar sem búa í Tsjernobyl hafa lifað af þrátt fyrir að vera berskjaldaðir fyrir geislavirkum ögnum margar kynslóðir aftur í tímann.

Rannsóknarteymi Love fór inn á Tsjernobyl-bannsvæðið árið 2014 til að setja sérstakar útvarpsólar á úlfana svo hægt væri að fylgjast með hreyfingum þeirra. Að sögn Love getur teymið fylgst með því í rauntíma hvar úlfarnir eru og hvað þeir verða fyrir mikilli geislun.
Einnig voru tekin blóðsýni af úlfunum til að komast að því hvernig líkamar úlfanna hafa brugðist við krabbameinsvaldandi geislavirkninni.
Rannsóknir vísindamannanna leiddu í ljós að úlfarnir hafa daglega orðið fyrir allt að 11,28 millírema geislun allt sitt líf. Slík geislun er sex sinnum meiri en mannfólk þolir svo hættulaust sé. Love kynnti niðurstöður rannsóknanna á árlegri ráðstefnu líffræðinga í síðasta mánuði.
Minna á krabbameinssjúklinga í geislameðferð
Love segir að úlfarnir séu komnir með stökkbreytt ónæmiskerfi sem minni á ónæmiskerfi krabbameinsveiks fólk sem er í geislameðferð. Einnig hafi vísindamennirnir borið kennsl á ákveðna hluta í erfðamengi úlfanna sem geri þá sérstaklega þolna gagnvart krabbameini.
Mikið af krabbameinsrannsóknum hafa gengið út á að staðsetja stökkbreytingar í mönnum sem auka líkur á krabbameini. Rannsókn Love og félaga hefur aftur á móti beinst að stökkbreytingum sem auka líkur á því að lifa af krabbamein.
Í niðurstöðum Love segir að erfðafræðileg svæði sem hópurinn hefur rannsakað sýni gen sem búi yfir ónæmum gegn æxlum, frumuinnrásum og frumuflutningum. Vísindamennirnir hafi náð að staðsetja tiltekin afbrigði sem sýni hugsanlega próteinbreytingar í ónæmisstjórnun og lífeðlisfræði krabbameins.