Bjarni Benediktsson mætti á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun að beiðni þingflokksformanns Pírata til að svara fyrir aðkomu hans sem fjármálaráðherra að umdeildri sölu á hlut í Íslandsbanka hinn 22. mars 2022. Fyrirtæki í eigu föður hans var meðal kaupenda.
Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bjarna hafi brostið hæfi við söluna. Ekki hafi verið farið að almennum hæfisreglum gagnvart honum og þeim sem buðu í og fengu hluti í bankanum.
Á fundinum sagði Bjarni það hafa legið fyrir gagnvart Alþingi að við þá aðferð sem notuð var við söluna hafi ekki verið hægt að framfylgja skoðun á hæfi fjármálaráðherra gagnvart hverjum og einum sem bauð í hlutina. Umboðsmaður hafi nefnt að ef til vill hefði þurft að breyta lögum.
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður nefndarinnar sagði að sér þætti að fram væri að koma enn ein túlkunin á söluferlinu hvað varðaði Alþingi.
„Er hæstvirtur ráðherra að halda því fram að hæfisreglurnar eigi ekki við eða það hafi ekki verið hægt að fara eftir þeim. Ég er bara að reyna að skilja þetta af því að við vitum öll og það liggur auðvitað fyrir að hæfisreglurnar eiga alltaf við,“ sagði Þórunn.
Bjarni segir vissa hættu á að nefndin freistist til að fara í pólitískan skollaleik. Það hafi vottað fyrir því á fundi nefndarinnar í dag.
Finnst þér þetta hafa borið merki einhvers konar pólitískra réttarhalda?
„Ég segi það nú kannski ekki alveg. En mér fannst margt af því sem spurt var um vera án tilefnis. Það var ekki ríkt tilefni til að kalla mig til þingsins til að spyrja þessara spurninga. Flestu þessa hefur verið svarað í skriflegum gögnum sem eru aðgengileg fyrir þessa þingmenn,“ sagði fjármálaráðherrann fyrrverandi að loknum fundi.
Þórhildur Sunna segir einmitt að skrifleg gögn frá fjármálaráðuneytinu sýni ekki fram á að Bjarni hafi fengið ráðgjöf um að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans við söluna.
„Auðvitað snýr þetta álit umboðsmanns að hans ákvörðunum. Hvernig hann stóð við sínar stjórnunar- og eftirlitsskyldur og að hann hafi brugðist þeim. Þannig að þetta er ekki spurning um hvort að þingið hafi gert einhverjar athugasemdir við hvort ráðherra bæri að fara að lögum eða ekki. Auðvitað hlýtur þingið að hafa gengið út frá því að ráðherra myndi fara að lögum þegar hann seldi banka,“ sagði Þórhildur Sunna.
Hér má sjá viðtal við Bjarna Benediktsson í heild sinni:
Hér má sjá viðtal við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur í heild sinni:
Hér má sjá fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í heild sinni: