Fótbolti

Ruglaðist þegar hann kaus leik­mann ársins og hélt að HM teldist með

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roberto Martínez ruglaðist aðeins.
Roberto Martínez ruglaðist aðeins. vísir/Mark Leech

Roberto Martínez, þjálfari portúgalska karlalandsliðsins í fótbolta, segist hafa gert mistök þegar hann kaus í vali á besta leikmanni ársins á FIFA verðlaunahátíðinni sem fór fram fyrr í mánuðinum.

Martínez setti Marcelo Brozovic í 3. sæti í kjöri á leikmanni ársins. Hann var lykilmaður í liði Króatíu sem vann brons á HM í Katar 2022. Heimsmeistaramótið taldist hins vegar ekki með á því tímabili sem verðlaunin náðu yfir. Það vissi Martínez ekki og kaus því Brozovic.

Mikla athygli vakti að Lionel Messi var kosinn leikmaður ársins 2023 en ekki Erling Haaland. Messi varð heimsmeistari 2022 en gerði ekki mjög mikið á árinu 2023. Á meðan var Haaland langmarkahæsti leikmaður Manchester City sem vann þrennuna á síðasta tímabili. Haaland bætti líka markametið á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Martínez segir að fleiri kjósendur hafi eflaust gert sömu mistök og hann og haldið að HM í Katar ætti að teljast með. 

Það gæti skýrt af hverju Messi vann FIFA-verðlaunin frekar en Haaland. Messi fékk einnig Gullboltann en þar taldist HM með.

Messi og Haaland voru efstir og jafnir í kjörinu á leikmanni ársins hjá FIFA en Argentínumaðurinn var oftar í 1. sæti hjá þeim landsliðsfyrirliðum sem kusu og fékk því verðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×