Fótbolti

Natasha komin á­fram og Guð­rún fékk loks stig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún Arnardóttir er máttarstólpi í liði Rosengård.
Guðrún Arnardóttir er máttarstólpi í liði Rosengård. Getty Images/Gualter Fatia

Tvær íslenskar landsliðskonur í knattspyrnu voru í eldlínunni í leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu. 

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn fyrir Rosengård þegar liðið náði í sitt fyrsta stig og Natasha Anasi byrjaði fyrir Brann í Prag þegar norska liðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum.

Fimmta umferð Meistaradeildar Evrópu fer fram þessa dagana og eru línur farnar að skýrast hvaða lið fara áfram og hvaða lið sitja eftir með sárt ennið. Þó það sé löngu ljóst að Rosengård sé ekki á leið upp úr A-riðli þá náði liðið loks í sitt fyrsta stig.

Guðrún lék allan leikinn í hjarta þriggja manna varnar sænska liðsins þegar Rosengård gerði 2-2 jafntefli við Benfica. Olivia Schough og Mai Kadowaki með mörk heimaliðsins. Ria Oling lagði upp bæði mörkin. Mörk Benfica skoruðu þær Jessica Silva og Marie-Yasmine Alidou d'Anjou.

Benfica er að öllum líkindum komið áfram nema Eintracht Frankfurt takist hið ómögulega og vinni Barcelona síðar í kvöld.

Í B-riðli tryggði Brann sér sæti í 8-liða úrslitum með 1-0 útisigri á Slavia Prag. Natasha Anasi-Erlingsson byrjaði leikinn í þriggja manna varnarlínu norska liðsins. Hún var tekin af velli eftir tæpa klukkustund en skömmu síðar kom sigurmarkið.

Brann með 10 stig að loknum fimm leikjum. Reikna má þó með að franska stórliðið Lyon vinni riðilinn en það mætir St. Pölten síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×