Um­fjöllun, við­töl og myndir: Valur - Tinda­stóll 90-79 | Fjórða tap Íslandsmeistaranna í röð

Siggeir Ævarsson skrifar
Kristófer Acox var í miklum ham í kvöld
Kristófer Acox var í miklum ham í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Liðin sem hafa mæst í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár, Valur og Tindastóll, áttust við á Hlíðarenda í stórleik 15. umferðar Subway-deildar karla.

Tindastólsmenn voru orðnir ansi langeygir eftir sigri en fyrir leik kvöldsins höfðu Íslandsmeistarnir tapað þremur leikjum í röð í deildinni og sátu í 8. sæti með 50 prósent sigurhlutfall.

Hungrið var klárlega til staðar í byrjun og gestirnir fóru mun betur af stað og leiddu megnið af leikhlutanum. En Valsarar kláruðu leikhlutann frábærlega og breyttu stöðunni úr 9-15 í 25-18 áður en leikhlutinn var á enda.

Tóti Túrbó náði sér ekki á strik í kvöld. Hann hefði kannski betur sleppt því að kaupa sér Kúlusúkk í Árbæ kvöldið fyrir leikVísir/Hulda Margrét

Stólarnir voru í raun alltaf að elta eftir það. Þeir náðu vissulega nokkrum góðum áhlaupum, eins og í upphafi þriðja leikhluta þegar þeir settu fjóra þrista á þremur mínútum og minnkuðu muninn í þrjú stig en Valsmenn tóku þá leikhlé og komu muninum strax aftur upp í tíu stig.

Það munaði eflaust töluvert um fyrir gestina að Pétur Rúnar Birgisson fékk sína fjórðu villu í lok fyrri hálfleiks og gat því ekki beitt sér af fullum krafti í vörninni það sem eftir lifði leiks.

António Monteiro steig heldur betur upp í þriðja leikhluta þegar hann skoraði 10 stig á örfáum mínútumVísir/Hulda Margrét

Heimamenn leiddu með fjórtán stigum fyrir lokaleikhlutann en Tindastólsmenn voru ekki dauðir úr öllum æðum og buðu upp á enn eitt áhlaupið. Þeir minnkuðu muninn í fimm stig í tvígang en urðu fyrir blóðtöku þegar Callum Lawson haltraði útaf þegar um fimm mínútúr voru eftir. Hann kláraði þó leikinn að lokum á annarri löppinni eða þar um bil.

Þrátt fyrir ítrekuð áhlaup tókst gestunum aldrei að koma alla leið til baka og Valsmenn lokuðu leiknum örugglega sem fjaraði í raun út í lokin.

Kristinn Pálsson reynir að komast framhjá Callum LawsonVísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Valur?

Það má segja að Valur hafi unnið þennan leik jafnt og þétt. Valsmenn byrjuðu leikinn illa en eftir að þeir hrukku í gang héldu þeir alltaf sínum takti og brotnuðu ekki undan pressunni sem Stólarnir reyndu að setja á þá.

Taiwo Badmus var stigahæstur á vellinum í kvöldVísir/Hulda Margrét

Hverjir stóðu upp úr?

Taiwo Badmus reyndist sínum gömlu félögum erfiður. 24 stig frá honum og átta fráköst. Kristinn Pálsson kom næstur með 16 og þá skoraði Kristófer Acox 14 og bætti við tíu fráköstum. Orkustigið hjá Kristó í hæstu hæðum í kvöld sem smitaði vel út frá sér.

Kristó fagnar af innlifunVísir/Hulda Margrét

Hjá Stólunum var Callum Lawson áberandi líflegastur sóknarlega og skoraði 21 stig. Adomas Drungilas kom næstur með 15 og sjö fráköst og þá skoraði Davis Geks 14.

Hvað gekk illa?

Tindastólsmönnum gekk illa að halda dampi í sínum leik. Í hvert sinn sem þeir náðu áhlaupi, sem voru ófá, fjaraði nánast jafnharðan undan þeim á ný og Valsmenn keyrðu muninn upp aftur.

Jacob Calloway léttur í lundu þrátt fyrir óblíðar móttökur Vísir/Hulda Margrét

Hvað gerist næst?

Stólarnir taka á móti Blikum 1. febrúar og freista þess að rífa sig í gang en Valsmenn fara aftur í Garðabæinn 2. febrúar þar sem þeir eiga harma að hefna síðan í bikarnum.

Finnur Freyr: „Þegar augnablikin þeirra komu náðum við að stoppa þau"

Finnur gat leyft sér að glotta aðeins út í annað í kvöldVísir/Hulda Margrét

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, sagði að sveiflur í orkumiklum leik eins og þessum væri eðlilegar en var ánægður með hvernig hans menn brugðust við áhlaupum Tindastóls.

„Það var mikil orka í báðum liðum í þessum leik. Það er eðlilegt þegar þessi tvö góðu lið mætast að það séu sveiflur í þessu. En ég er ánægður með orkuna hjá okkur og þegar augnablikin þeirra komu náðum við að stoppa þau, hvort sem það var með varnarleiknum okkar eða góðum sóknarleik.“

Það var sannarlega hátt orkustig í þessum leik, jafnvel smá hiti í mönnum. Finnur sagði að Valsarar hefðu fyrst og fremst verið staðráðnir í að bæta fyrir tapið á móti Stjörnunni í bikarnum.

„Ég held að það sé bara meira að við höfum verið svekktir yfir leiknum á sunnudaginn. Við vorum að leika okkur aðeins að prófa nýja hluti í dag og gaman að sjá eins og leikurinn þróaðist hvernig við náðum að bæta okkur í því. Þetta voru hlutir sem við vorum búnir að æfa lítið. Það er gaman að sjá liðið núna vera hægt og rólega að smella saman.“

„Við náttúrulega fórum í hörku „50/50“ leik á móti góðu Stjörnuliði á þeirra heimavelli. Svekktir að hafa tapað þeim leik en það er bara eins og þessi deild er. Þetta eru allt saman meira og minna „50/50“ leikir. Auðvitað koma einhver skrýtin úrslitin inn á milli en allir leikir gríðarlega erfiðir og allir leikir sem við gætum tapað. Þannig að maður verður að setja þessa orku og mér fannst við gera mjög vel að vera með orkustigið hátt hér í dag.“

Þessi tvö lið, Valur og Tindastóll, hafa myndað ansi mikla sögu sín á milli undanfarin misseri. Áttust auðvitað við í úrslitunum síðasta vor og þá eru leikmenn í báðum liðum núna sem hafa skipt um lið á milli leiktíða. Finnur vildi þó ekki gera mikið úr meintum ríg á milli liðanna.

„Íþróttir eru þannig að þú leggur öll spilin á borðið, svo vinnurðu og taparðu og vinnur titil eða ekki. Svo árið eftir byrjarðu bara upp á nýtt. Það er hægt að búa til einhverjar svona sögulínur, en fyrir okkur erum við bara að sanna fyrir sjálfum okkur að við séum að verða betri til að við getum gert atlögu að þessum titli aftur og reyna að koma okkur í úrslitin þriðja árið í röð. Það er það sem skiptir máli. Fyrir okkur er vissulega gott að vinna þennan hérna á heimavelli, en þetta er einn af 22 og hann telur jafn mikið og næsti.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira