Innlent

Pall­borðið í dag: Hvað heldur stjórnar­flokkunum saman?

Heimir Már Pétursson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Stjórnarþingmennirnir Diljá Mist Einarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir eru í Pallborðinu í dag.
Stjórnarþingmennirnir Diljá Mist Einarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir eru í Pallborðinu í dag. vísir/arnar

Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn hafa nú verið saman í ríkisstjórn í 62 mánuði og farið að gæta spennu og þreytu í stjórnarsamstarfinu. Þrír stjórnarþingmenn mæta í Pallborðið klukkan 14 til að ræða stöðuna á stjórnarheimilinu við Heimi Má Pétursson fréttamann í beinni útsendingu.

Þegar fyrri stjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð árið hinn 30. nóvember 2017 var í raun stjórnarkreppa í landinu sem varð grundöllurinn að þessu óvenjulega og ólíklega stjórnarsamstarfi. Nú 26 mánuði inn í annað kjörtímabil stjórnarflokkanna hafa þeir allir misst mikið fylgi og næðu ekki að mynda meirihluta á Alþingi ef kosið yrði á morgun samkvæmt könnunum.

Það er komin þreyta í samstarfið, sérstaklega á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins og ekki laust við að fylgistapið hafi skapað örvæntingu í herbúðum þeirra. Flokkana greinir á í fjölmörgum málum. Þeir eru ósammála í löggæslumálum, málefnum flóttamanna, orkumálum, hvalveiðimálum, utanríkismálum, heilbrigðismálum og örugglega fleiri málum.

Það hefur oft gefið hressilega á bátinn hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, eins og hinn 28. nóvember 2021 þegar annað ráðuneyti hennar tók við völdum á Bessastöðum.Vísir/Vilhelm

Stjórnarþingmennirnir Diljá Mist Einarsdóttir Sjálfstæðisflokki, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri grænum og Stefán Vagn Stefánsson Framsóknarflokki ræða stöðuna í Pallborðinu í dag.

Hvað heldur stjórnarflokkunum saman? Er það óttinn við dóm kjósenda eða dálæti á völdunum og áhrifunum sem þeim fylgir eða eru þeir enn sammála um einhver kjarna málefna til heilla fyrir land og þjóð?

Pallborðið í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 14:00 í dag. Þeir sem ekki geta fylgst með útsendingunni geta lesið alla helstu punktana í vaktinni hér að neðan. 


Tengdar fréttir

Enn rís Mið­flokkurinn

Samfylkingin mælist með tæplega 26 prósenta fylgi og er enn stærsti stjórnmálaflokkurinn samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Fylgi Miðflokksins eykst þriðju mælinguna í röð og mælist flokkurinn nú með tólf prósenta fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×