Körfubolti

„Héldum að við værum of kúl til að klára þetta á fullu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson var vægast sagt ósáttur við spilamennsku sinna manna í fjórða leikhluta gegn Blikum í kvöld.
Viðar Örn Hafsteinsson var vægast sagt ósáttur við spilamennsku sinna manna í fjórða leikhluta gegn Blikum í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í Subway-deild karla í körfubolta, var hóflega sáttur með sigur sinna manna gegn Breiðabliki í kvöld.

Hattarmenn höfðu öll völd á vellinum stærstan hluta leiksins og náðu yfir tuttugu stiga forskoti snemma í öðrum leikhluta. Liðið var svo með 27 stiga forskot þegar komið var að fjórða og síðasta leikhluta leiksins, en þá hleyptu Hattarmenn Blikum inn í leikinn og niðurstaðan varð óþarflega naumur átta stiga sigur Hattar, 78-86.

„Þetta var bara lélegur fjórði leikhluti, en ég er að reyna að vera ánægður með sigurinn. Frammistaðan í þrjá leikhluta var algjörlega til fyrirmyndar, bæði í vörn og sókn, en ég er virkilega ósáttur við mína menn hvernig við nálguðumst þetta í fjórða leikhluta og héldum að við værum eitthvað of kúl til að klára þetta á fullu sem var bara lélegt,“ sagði Viðar í leikslok.

Hann segir að hægt sé að skrifa lokaleikhlutann að miklu leyti á kæruleysi sinna manna.

„Menn héldu bara að þeir gætu slakað á. Það er miklu skemmtilegra þegar menn eru á fullu og gera þetta af krafti. Ég er bara hálf orðlaus yfir frammistöðunni í fjórða leikhluta.“

Viðar segist þó geta horft jákvæðum augum á hina þrjá leikhluta leiksins.

„Ég er auðvitað ánægður að vinna. Þetta snýst um það og er keppni í því. Ég er bara ánægður með sigur hérna á móti Breiðabliki því það er ekkert auðvelt að spila á móti þeim.“ 

„Við vorum komnir í fjórða leikhluta og það er alveg sama hvort þeir séu 30 stigum yfir eða 30 stigum undir, þeir halda alltaf áfram. Þeir henda upp skotum og halda áfram að ráðast á þig. Um leið og þú verður kærulaus þá rugga þeir þér og þeir gerðu það mjög vel. En þrír leikhlutar voru góðir og það er eitthvað til að byggja á. Þannig ég er ánægður með það,“ sagði Viðar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×