Tite hætti sem þjálfari Brasilíu eftir HM 2022 þar sem Brassar féllu úr leik fyrir Króötum í átta liða úrslitum. Ramon Menezes stýrði brasilíska liðinu fyrst í stað áður en Diniz var ráðinn. Brasilía vann hins vegar aðeins tvo af sex leikjum undir hans stjórn og hann var látinn taka pokann sinn í síðustu viku.
Brasilíska knattspyrnusambandið vildi fá Carlo Ancelotti til að taka við landsliðinu en ekkert verður af því þar sem hann skrifaði undir nýjan samning við Real Madrid á dögunum.
Dorival hættir hjá Sao Paulo til að taka við brasilíska landsliðinu. Undir hans stjórn varð Sao Paulo brasilískur bikarmeistari í fyrra. Þar áður stýrði Dorival Flamengo og gerði liðið að bikar- og Suður-Ameríkumeisturum 2022.
Hinn 61 árs Dorival hefur einnig stýrt Atletico Mineiro, Athletico Paranaense, Internacional, Vasco da Gama, Fluminense, Snatos og Palmeiras auk annarra minni liða á þjálfaraferlinum.
Dorival stýrir Brasilíu í fyrsta sinn í vináttulandsleikjum gegn Englandi og Spáni í mars. Fyrsti keppnisleikurinn er svo gegn Ekvador í undankeppni HM 2026 í september. Brassar eru í 6. sæti Suður-Ameríkuriðilsins.