Handbolti

Vilja ekki láta kalla sig lengur kú­reka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivano Balic kom fyrstur fram með kúreka gælunafnið.
Ivano Balic kom fyrstur fram með kúreka gælunafnið. Getty/Christof Koepsel

Á Íslandi eru þeir kallaðir strákarnir okkar en í Króatíu hafa landsliðsmennirnir verið kallaðir kúrekar. Nú vilja króatísku leikmennirnir breyta því.

Króatíska handboltasambandið hefur beðið króatíska fjölmiðla um að hætta að kalla þá kúreka.

„Í sambandi við fjölmargar fyrirsagnir og greinar í fjölmiðlum sem nota gælunafnið kúrekar fyrir króatíska karlalandsliðið í handbolta þá viljum við fyrir hönd landsliðsmannanna okkar biðja ykkur um að hætta því. Núverandi leikmenn liðsins voru ekki hluti af kynslóðinni sem bjó til þetta gælunafn á sínum tíma,“ segir í yfirlýsingu frá króatíska sambandinu.

Kúrekanafnið kom til árið 2009 þegar Króatar spiluðu á heimavelli á heimsmeistaramótinu.

Goðsögnin Ivano Balic gaf liðinu nafnið. Hann lék með landsliðinu frá 2001 til 2012 og var kosinn besti leikmaðurinn á fjórum stórmótum (EM 2004, HM 2005, EM 2006 og HM 2007). Balic þykir vera einn besti handboltamaður sögunnar.

Króatar töpuðu úrslitaleiknum á HM 2009 og fengu því silfur. Þeir hafa unnið til verðlauna á fimm af síðustu sjö Evrópumótum (þrjú silfur, tvö brons) en hafa aldrei orðið Evrópumeistarar.

Króatía varð heimsmeistari í eina skiptið árið 2003 og vann Ólympíugull bæði 1996 og 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×