Íslenska landsliðið hefur verið við æfingar hér á landi en heldur svo til Austurríkis á morgun þar sem liðið spilar tvo vináttulandsleiki, á laugardag og mánudag.
Strákarnir fara svo yfir landamærin til Þýskalands, nánar tiltekið til München, þar sem fyrsti leikur á EM verður við Serbíu föstudaginn 12. janúar. Áhuginn á þeim er að vanda afar mikill og búist er við að um 4.000 Íslendingar verði á svæðinu í München.
Leikirnir á EM verða í minnsta lagi þrír, en komist Ísland upp úr sínum riðli bætast við fjórir leikir í milliriðli. Loks er auðvitað möguleiki á leik í undanúrslitum, og í kjölfarið leik um gull- eða bronsverðlaun.
Dagskrána hjá íslenska landsliðinu má sjá hér að neðan.
Dagskrá íslenska landsliðsins
- Laugardagur 6. janúar, kl. 17.15:
- Austurríki – Ísland, vináttulandsleikur
- Mánudagur 8. janúar, kl. 17.10:
- Austurríki – Ísland, vináttulandsleikur
- Föstudagur 12. janúar, kl. 17.00:
- Ísland – Serbía, C-riðill
- Sunnudagur 14. janúar, kl. 17.00:
- Svartfjallaland – Ísland, C-riðill
- Þriðjudagur 16. janúar, kl. 19.30:
- Ísland – Ungverjaland, C-riðill
Ekki liggur fyrir hvort Ísland spilar fleiri leiki en fari svo að liðið komist upp úr C-riðlinum bíða í milliriðlinum í Köln fjórir afar sterkir mótherjar. Sennilegast er að það verði Frakkland, Spánn, gestgjafar Þýskalands og Króatía.

Leikdagarnir í milliriðli:
- 18. janúar
- 20. janúar
- 22. janúar
- 24. janúar
Tvö efstu liðin í milliriðlinum komast svo áfram í undanúrslitin 26. janúar sem einnig eru leikin í Köln, líkt og leikirnir um gull- og bronsverðlaunin sem fram fara 28. janúar.
Ef allt gengur eins og í ævintýri og Ísland spilar um verðlaun á mótinu mun liðið því leika alls ellefu landsleiki á 22 dögum í þessum mánuði.