Fyrir jólin í ár hefur verið fjallað um þann metfjölda sem þarf á fjárhagsaðstoð að halda en hjálparbeiðnum til hjálparsamtaka hefur rignt inn dagana fyrir jól.
„Við ætlum að bjóða upp á hamborgarhrygg, alls konar lambakjöt, meðlæti, rjómasósu og súpu. Þetta er mestmegnis gjafamatur frá fyrirtækjum og einstaklingum. Við erum þeim afskaplega þakklát, því annars gætum við ekki haft svona frábæran mat eins og er núna,“ segir Rósý Sigþórsdóttir, forstöðumaður Kaffistofu Samhjálpar.
Hún segir fólkið sem mætir vera afar þakklátt.
„Það hefur engin önnur hús að fara í til þess að fá svona hlýjar og góðar móttökur og góðan mat. Þannig þetta er staðurinn þeirra til að borða. Þau eru svo þakklát og það gefur mér allt að fá þakklætið frá þeim þegar þau eru að þakka fyrir sig og fara,“ segir Rósý.
Hún segir Samhjálp hafa fundið fyrir fjölgun þeirra sem þurfa á aðstoð að halda.
„Það er alltaf fjölgun frá ári til árs. Það er ekkert minna hér en hefur verið undanfarin tvö, þrjú ár þannig við finnum alveg vel fyrir því,“ segir Rósý.
Samhjálp býður upp á hádegismat fyrir þá sem þurfa á honum að halda allar hátíðarnar en meðal þess sem verður á boðstólnum næstu daga er hangikjöt, kalkúnn og fleira.