Fótbolti

Barcelona í hættu á að vera rekið úr Meistara­deildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Joan Laporta, forseti Barcelona.
Joan Laporta, forseti Barcelona. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Evrópska knattspyrnusambandið rannsakar brot Barcelona á fjárhagsreglum sambandsins. Félagið bókfærði framtíðartekjur í ársreikning félagsins og gæti nú átt í hættu á að vera rekið úr Meistaradeild Evrópu.

Þýski fjölmiðillin Welt greindi fyrst frá málinu. Þar segir að evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, sé enn að rannsaka fjárhagsmál félagsins og gæti beitt þungum refsingum vegna brota á Financial Fair Play fjárhagsreglunum. 

Regluverk UEFA leyfir félögum aðeins að telja tekjur af áþreifanlegum eignum svosem leikmannasölu, miðasölu, veitingasölu, búningasölu o.s.frv.. Barcelona virðist hins vegar hafa tekið með í reikninginn sölur á allskyns óáþreifanlegum eignum, svosem sölu á sjónvarpsréttindum og markaðsmálum félagsins. 

Það er ekkert nýtt af nálinni að efnahagsreikningar Barcelona séu í rugli, félagið fékk fyrr á árinu sekt frá UEFA upp á 500.000 evrur, rétt rúmar 75 milljónir króna, fyrir að bókfæra framtíðartekjur sínar á ársreikning þessa árs og gæti nú verið að horfa fram á frekari refsingar.

Félagið hefur staðið í miklum fjárhagsvandræðum síðustu ár og gæti verið að horfa fram á enn frekara tekjutap yrði því meinuð þátttaka í Meistaradeildinni, líkt og Welt heldur fram. Búast má við ákvörðun frá UEFA fyrir 31. mars 2024. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×