Vazquez skaut tíu Madrídingum á toppinn

Lucas Vasquez reyndist hetja Real Madrid í kvöld.
Lucas Vasquez reyndist hetja Real Madrid í kvöld. Vísir/Getty

Lucas Vazquez reyndist hetja Real Madrid er hann tryggði liðinu 0-1 sigur með marki á ögurstundu gegn Alaves í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Madrídingar voru sterkari aðilinn framan af leik, en illa gekk að skapa opin marktækifæri og staðan var enn markalaust þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir í Real Madrid komu sér svo í vandræði snemma í síðari hálfleik þegar Nacho Fernandez fékk að líta beint rautt spjald fyrir harkalegt brot á Samu Omorodion og Madrídingar þurftu því að leika stærstan hluta síðari hálfleiksins manni færri.

Þrátt fyrir liðmuninn tókst gestunum þó að kreista út sigur með marki frá Lucas Vazquez þar sem hann skallaði hornspyrnu Toni Kroos í netið á annarri mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan því mikilvægur 0-1 sigur Real Madrid sem lyftir sér á toppinn í spænsku úrvalsdeildinni. Liðið er nú með 45 stig eftir 18 leiki, líkt og Girona sem gerði jafntefli fyrr í kvöld, en situr ofar á betri innbyrðis niðurstöðu. Alaves situr hins vegar í 16. sæti með 16 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira