Fótbolti

Ísak Snær fær nýjan og ungan þjálfara hjá Rosen­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar einu af 7 mörkum sínum á liðinni leiktíð.
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar einu af 7 mörkum sínum á liðinni leiktíð. Vísir/Getty Images

Norska stórveldið Rosenborg tilkynnti í gær, fimmtudag, nýjan þjálfara liðsins. Ísak Snær Þorvaldsson leikur með liðinu.

Rosenborg endaði í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa verið í fallbaráttu framan af tímabili. Liðið varð síðast Noregsmeistari árið 2018 og síðan þá hefur liðið verið í 3. til 5. sæti, það er þangað til ár.

Það gekk lítið sem ekkert upp hjá Rosenborg á yfirstaðinni leiktíð, Ísak Snær var mikið meiddur og Kristall Máni Ingason var seldur til Sönderjyske í Danmörku.

Til að hrista upp í hlutunum hefur Rosenborg því tekið þá ákvörðun að ráða hinn 33 ára gamla Alfred Johansson en Svíinn hefur undanfarin ár stýrt U-19 ára liði FC Kaupmannahafnar. Á þeim tíma hefur fjöldi leikmanna skilað sér úr yngri liðum FCK upp í aðalliðið sem og U19 ára liðið náð eftirtektarverðum árangri.

Síðast verk Alfreds var að tryggja U-19 ára liðinu sæti í 8-liða úrslitum UEFA Youth League með því að vinna sinn riðil. Keppnin samsvarar Meistaradeild Evrópu í þeim aldursflokki. Var U-19 ára lið FCK líkt og aðalliðið með Manchester United, Bayern München og Galatasaray í riðli.

Reikna má með breytingum á leikmannahópi Rosenborgar en þar sem Ísak Snær stóð sig með prýði eftir að hafa náð fullri heilsu má reikna með að hann verði áfram í herbúðum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×