PSV og Arsenal gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust í uppgjöri efstu tveggja liða B-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.
Liðin höfðu þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir leik kvöldsins og raunar var þegar orðið ljóst að Arsenal myndi enda í efsta sæti riðilsins og PSV í öðru sæti. Það var því lítið undir annað en heiðurinn.
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 42. mínútu þegar Eddie Nketiah batt endahnútinn á góða sókn Arsenal og kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Reiss Nelson og gestirnir frá Lundúnum fóru því með 1-0 forystu inn í hálfleikshléið.
Yorbe Vertessen jafnaði þó metin fyrir heimamenn snemma í síðari hálfleik eftir undirbúning Ricardo Pepi og þar við sat.
Jakub Kiwior hélt hins vegar að hann hafi tryggt Arsenal sigurinn með skallamarki á 82. mínútu, en eftir skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og liðin skipta stigunum á milli sín. Arsenal endar sem áður segir á toppi B-riðils með 13 stig, fjórum stigum meira en PSV sem hafnar í öðru sæti.
Á sama tíma mættust Lens og Sevilla í sama riðli og varð niðurstaðan í þeim leik 2-1 sigur Lens þar sem Angelo Fulgini reyndist hetja heimamanna. Lens endar því í þriðja sæti riðilsins með átta stig og er á leiðinni í Evrópudeildina, en Sevilla hafnar í fjórða og neðsta sæti með tvö stig.