Fótbolti

Ís­lensku stelpurnar vita það í há­deginu hvaða þjóð þær mæta í um­spilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir tryggði Íslandi sigur á Danmörku í lokaleik riðlakeppninnar.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir tryggði Íslandi sigur á Danmörku í lokaleik riðlakeppninnar. Vísir/Diego

Í dag verður dregið um mótherja Íslands í umspili Þjóðadeildar kvenna í fótbolta. Íslensku stelpurnar spila þá um áframhaldandi sæti í A-deild keppninnar.

A-deild næstu Þjóðardeildarinnar verður einnig undankeppni fyrir næsta Evrópumót þar sem tvær efstu þjóðirnar í riðlunum tryggja sér sæti á EM 2025.

Ísland, Belgía, Noregur og Svíþjóð lentu öll í þriðja sæti í sínum riðli í A deild og geta þau mætt Bosníu og Hersegóvínu, Króatíu, Ungverjalandi eða Serbíu sem lentu öll í öðru sæti í sínum riðli í B-deild.

Spilaðir verða tveir leikir, heima og að heiman og er það samanlagður árangur í leikjunum tveimur sem gildir. Ekki er ljóst hvar Ísland mun spila heimaleik sinn en stjórn KSÍ hefur sótt um leyfi hjá UEFA um að spila hann á erlendri grundu.

Fyrri leikurinn í umspilinu verður útileikur og sá síðari heimaleikur. Leikirnir verða spilaðir á tímabilinu 21. til 28. febrúar 2024

Drátturinn fer fram í hádeginu en þá er einnig dregið í úrslit Þjóðardeildarinnar sem og í umspil milli B- og C-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×