Sport

Ís­lendinga­liðið fagnaði sigri á Cross­Fit Showdown mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson og Þuríður Erla Helgadóttir sjást hér efst á palli með liði sínu.
Björgvin Karl Guðmundsson og Þuríður Erla Helgadóttir sjást hér efst á palli með liði sínu. @fitfest_uk

Bandaríska CrossFit konan Danielle Brandon valdi það að hafa tvo íslenska CrossFit íþróttamenn í sínu liði á Pro CrossFit Showdown mótinu og það var greinilega mjög góð ákvörðun hjá henni því lið hennar fagnaði sigri á mótinu í Birmingham í Englandi um helgina.

Reynsluboltarnir Björgvin Karl Guðmundsson og Þuríður Erla Helgadóttir voru í liði Brandon sem fagnaði sigri eftir hörkukeppni.

Þrír fyrirliðar á mótinu, Danielle Brandon frá Bandaríkjunum, Emma Lawson frá Kanada og Ella Wunger frá Svíþjóð völdu í sín lið fyrir þessa spennandi liðakeppni. Liðin þrjú báru nöfnin Team Brandon, Team Lawson og Team Wunger.

Brandon var einnig í liðinu með Björgvini Karli og Þuríði Erlu ásamt Arielle Loewen, Dallin Pepper og Jayson Hopper.

Lið Brandon og Lawson enduðu með jafnmörg stig en Ísleningaliðið fagnaði sigri vegna þess að liðið vann fleiri einstakar greinar.

Lið Brandon vann fjórar greinar og endaði í öðru sæti í tveimur. Lið Lawson vann þrjár greinar þar á meðal lokagrein mótsins.

Keppnin var mjög spennandi eins og sést á því að tvö efstu liðin voru jöfn og þriðja liðið aðeins tveimur stigum á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×