Fótbolti

Zlatan ó­vænt orðaður við sitt fyrsta þjálfara­starf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic kvaddi AC Milan sem leikmaður á þessu ári en hann gæti snúið aftur í annað starf hjá félaginu.
Zlatan Ibrahimovic kvaddi AC Milan sem leikmaður á þessu ári en hann gæti snúið aftur í annað starf hjá félaginu. Getty/Claudio Villa

AC Milan er í vandræðum í ítalska fótboltanum og tapaði enn einum leiknum um helgina. Ítalskir fjölmiðlar eru farnir að velta því fyrir sér hvort breytingar séu í farvatninu í Mílanó.

AC Milan er í þriðja sæti Seríu A en nú níu stigum á eftir toppliði Internazionale. Framtíð Stefano Pioli þjálfara hjá félaginu er sögð standa tæpt.

Ítalska blaðið La Repubblica slær því upp að Pioli gæti hreinlega misst starfið á næstunni.

Blaðamenn La Repubblica er ekki aðeins að skrifa um það að Pioli verði mögulega rekinn heldur en hafa þeir einnig nefnt þá sem eru líklegastir til að taka við af honum.

Þeir sem eru nefndir til sögunnar eru fyrrum leikmenn liðsins hinn 37 ára gamli Ignazio Abate og hinn 42 ára gamli Zlatan Ibrahimovic.

Abate og Ibrahimovic spiluðu saman hjá AC MIlan frá 2010 til 2012 áður en Zlatan fór til Paris Saint-Germain. Abate hætti að spila árið 2019 og er nú þjálfari unglingaliðs félagsins.

Félagarnir myndu taka við liðinu tímabundið en sá sænski er síðan líklega á leið í annað starf hjá ítalska félaginu.

La Repubblica veltir nefnilega því líka fyrir sér hvort að Zlatan geti orðið sérstakur ráðgjafi fyrir eigandann Gerry Cardinale.

Zlatan hefur verið orðaður við starf hjá félaginu síðan skórnir fóru upp á hillu. Hann var spurður út í það um helgina.

„Ég veit ekkert. Við ræðum saman og sjáum til hvað gerist,“ sagði Zlatan við Sky Italia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×