Fótbolti

Arteta ætlar ekki að hætta að sýna til­finningar þrátt fyrir bannið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikel Arteta fagnaði eðlilega eins og óður maður þegar Declan Rice tryggði Arsenal dramatískan sigur gegn Luton í vikunni.
Mikel Arteta fagnaði eðlilega eins og óður maður þegar Declan Rice tryggði Arsenal dramatískan sigur gegn Luton í vikunni. Catherine Ivill/Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segist ekki ætla að hætta að sýna tilfinningar á hliðarlínunnu þrátt fyrir að vera kominn í bann fyrir einmitt það.

Arteta nældi sér í sitt þriðja gula spjald á tímabilinu í leik Arsenal og Luton síðastliðinn þriðjudag og verður því í banni þegar liði heimsækir Aston Villa síðar í dag. Gula spjaldið fékk Arteta fyrir að fagna dramatísku sigurmarki Declan Rice óhóflega.

„Ég veit ekki hvernig ég á að stoppa þetta,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í gær. 

„Þetta var tilfinningaþrungin stund þar sem allir misstu sig og maður veit ekki alveg hvar maður er og hvar maður á að vera. Það er óheppilegt að ég geti ekki verið á hliðarlínunni, en þetta er ákvörðun sem dómarinn tekur þar sem hann fylgir reglunum til hins ítrasta.“

„Auðvitað myndi ég vilja vera með leikmönnunum af því að við vinnum mjög náið saman á hverjum degi til að reyna að afreka allt sem við viljum, sem er að vinna leiki. Þegar þú færð þessi augnablik áttu að geta fagnað þeim.“

Arsenal heimsækir Aston Villa klukkan 17:30 í dag og með sigri tryggir liðið að það verði á toppnum að sextándu umferð lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×