Innlent

Flugumferðarstjórar boða til verk­falls í næstu viku

Árni Sæberg skrifar
Verkfall flugumferðarstjóra hefði mikil áhrif á starfsemi Play og Icelandair.
Verkfall flugumferðarstjóra hefði mikil áhrif á starfsemi Play og Icelandair. Vísir/Vilhelm

Flugumferðarstjórar munu að óbreyttu leggja niður störf á þriðjudags- og fimmtudagsmorgun í næstu viku. Samningar milli þeirra og Isavia hafa verið lausir í rúma tvo mánuði og formaður Félags flugumferðarstjóra segir enn töluvert bera í milli.

Þetta staðfestir Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, en Vísir náði tali af honum þegar samningafundi við fulltrúa Isavia lauk í dag.

Hann segir að fundurinn hafi gengið ágætlega en að enn beri töluvert í milli. „En þetta þokast, við getum sagt það.“

Arnar segir að kosningu félagsmanna um verkfall hafi lokið á sunnudagskvöld eftir að hafa staðið yfir í þrjá sólarhringa. Verkfall hafi verið samþykkt með miklum meirihluta greiddra atkvæða.

Ljóst er að verkfall Félags flugumferðarstjóra getur haft víðtæk áhrif en meðlimir þess sjá um flugumferðarstjórn á öllum flugvöllum landsins og eðli málsins samkvæmt er ekki flogið án starfandi flugumferðarstjórnar.

Þriðja boðaða verkfallið á fimm árum

Tímasetning verkfallsins boðaða vekur athygli en mestar annir eru á Keflavíkurflugvelli og hjá íslensku alþjóðaflugfélögunum tveimur á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum.

Verkfall flugumferðarstjóra vofði síðast yfir í byrjun september árið 2021 en samningar náðust þann 28. ágúst eftir stífar samningaviðræður hjá Ríkissáttasemjara. Þeir samningar voru til rétt rúmra tveggja ára og runnu út þann 1. október síðastliðinn.

Þar áður höfðu flugumferðarstjórar boðað til verkfalls árið 2019.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×