Fótbolti

Sögu­legt: Fyrsta sinn sem Ís­land vinnur gömlu herraþjóðina á danskri grundu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, fagnar sigri á Dönum.
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, fagnar sigri á Dönum. KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið endaði árið á frábærum sigri á Dönum í lokaleik sínum í Þjóðadeildinni í gær og náði um leið vonandi að brjóta múr sem hefur staðið alltof lengi.

Fyrir leikinn í gær hafði íslenskt A-landslið í fótbolta nefnilega aldrei náð að vinna Danmörku á danskri grundu.

Karlalandsliðið er reyndar án sigurs á móti Dönum, sama hvar hefur verið spilað í heiminum, en kvennalandsliðið hafði aldrei áður náð að fagna sigri í Danmörku.

Stelpurnar okkar voru samt að vinna danska landsliðið í þriðja sinn í gær en báðir hinir sigrarnir komu á Algarve mótinu í Portúgal, annar árið 2011 en hinn árið 2016.

Þetta var þriðji leikur kvennalandsliðsins á móti Dönum í Danmörku en hinir leikirnir enduðuu með 1-1 jafntefli og 2-0 tapi.

Það er aftur á móti mun ljótari lestur að skoða árangur karlalandsliðsins á móti Danmörku á danskri grundu. Allir níu leikirnir hafa tapast og markatalan er 29 mörk í mínus eða 5-34.

Þar munar vissulega mikið um frægasta tapið sem kom í fyrsta leik íslensks A-landsliðs í fótbolta á danskri grundu.

Danir unnu 14-2 sigur á Íslandi á Parken 23. ágúst 1967. Síðan þá höfðu íslensku A-landsliðin leikið tíu leiki í Danmörku án þess að vinna. Þar til í Viborg í gærkvöldi.

Karlalandsliðið hefur skorað í síðustu tveimur leikjum sínum í Danmörku og þeir hafa báðir tapast með minnsta mun. Þetta voru fyrstu mörk karlanna á danskri grundu síðan árið 1974 en fram að þeim höfðu 67% marka Íslands á móti Dönum í Danmörku komið í fræga 14-2 tapinu.

  • Löng bið
  • Fyrir leikinn í gær höfðu íslensk A-landslið, karla eða kvenna, spilað ellefu sinnum á danskri grundu, tíu leikir höfðu tapaðst og sá ellefti endaði með jafntefli. Markalatan var 6-37 Dönum í vil.


Tengdar fréttir

Inn­hólf Karó­línu fullt af þakk­látum Þjóð­verjum

Íslensku stelpurnar í fótboltalandsliðinu unnu ekki bara frækinn sigur gegn Dönum í gærkvöld heldur gerðu þær Þjóðverjum risastóran greiða um leið. Og Þjóðverjarnir hafa verið duglegir að þakka fyrir sig.

Fjölskyldan í skýjunum með frumraun Fanneyjar

Hin 18 ára gamla Fann­ey Inga Birkis­dóttir, stimplaði sig ræki­lega inn í ís­lenska kvenna­lands­liðið í fót­bolta er hún átti stór­leik í sínum fyrsta A-lands­leik. Leik gegn Dönum á úti­velli í Þjóða­deildinni sem endaði með eins marks sigri Ís­lands. Fjöl­skylda Fann­eyjar var á vellinum í Vi­borg og segir faðir hennar, Birkir Ingi­bjarts­son, dóttur sína al­deilis hafa sýnt hvað í sér býr.

Danir í sárum eftir „fíaskóið“ gegn Íslandi

Danir eru í öngum sínum yfir að hafa ekki nýtt tækifærið til að komast í dauðafæri á að fara á Ólympíuleikana næsta sumar. Tapið gegn Íslandi í gær, 1-0, er þeim afar dýrkeypt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×