Körfubolti

„Skiptir rosa­lega miklu máli fyrir þetta lið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emil Karel Einarsson átti hörkuleik fyrir Þór Þorlákshöfn á fimmtudaginn.
Emil Karel Einarsson átti hörkuleik fyrir Þór Þorlákshöfn á fimmtudaginn. vísir/hulda margrét

Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs Þorlákshafnar, átti virkilega góðan leik fyrir þá grænklæddu er liðið vann sterkan 17 stiga sigur gegn Íslandsmeisturum Tindastóls síðastliðinn fimmtudag.

Þórsarar höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins og sigur þeirra var í raun nánast aldrei í hættu. Heimamenn unnu að lokum 96-79 í Þorlákshöfn og fyrirliðinn Emil skilaði 18 stigum fyrir liðið.

„Þetta skiptir rosalega miklu máli fyrir þetta lið. Þetta er fyrsti góði leikurinn hans Emils og þá á hann líka bara frábæran leik,“ sagði Ómar Örn Sævarsson þegar félagarnir í Subway Körfuboltakvöldi ræddu um frammistöðu Emils.

„Það er meira en bara þessi stig sem hann er að skora. Mér fannst hann vera svo peppandi og hann og Dabbi [Davíð Arnar Ágússton, leikmaður Þórs] finnst mér vera mikilvægustu leikmennirnir í þessu liði upp á hjartað og peppið,“ bætti Ómar við.

Magnús Þór Gunnarsson tók í sama streng og Ómar, en gagnrýndi Emil og aðra heimastráka þó einnig fyrir frammistöðu sína í heild sinni á tímabilinu.

„Það sem ég er svekktastur með í kringum þessa íslensku stráka sem eru í rauninni hjartað í Þorlákshöfn er að það á ekkert að skipta máli hvort þú byrjir inná vellinum eða komir inná. Þeir eiga alltaf að vera tilbúnir,“ sagði Magnús meðal annars, en innslagið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Klippa: Emil Karel gegn Tindastól



Fleiri fréttir

Sjá meira


×