„Mér fannst mjög huggulegt að hafa einhvern til að spjalla við á sviðinu,“ segir Una. „Ég á það til að tala lengi á milli laga og verð stundum óviss um hvort ég sé búin að tala of lengi. Með Völu þarna hjá mér var stemningsábyrgðinni dreift aðeins betur sem var mjög gott.“

Bylgjan órafmögnuð hófst á Bylgjunni, Vísi og sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi í upphafi mánaðarins en þetta er þriðja árið í röð sem tónleikaröðin er haldin. Búið er að taka alla tónleikana upp sem fóru fram í Bæjarbíói í Hafnarfirði.
Eins og fyrr segir mun Una flytja þekktari lög sín í bland við óútgefið efni. „Ég á þó nokkuð af óútgefnu efni sem mér finnst gaman að flytja, sérstaklega þegar ég kem ein fram með gítarinn. Þegar ég setti saman lagalista kvöldsins reyndi ég því að finna gott jafnvægi á milli laga sem fólk þekkir og svo óútgefinna laga sem njóta sín vel í svona lágstemmdum flutningi.“
Una hefur komið ansi sterkt inn í íslenskt tónlistarlíf á skömmum tíma. Hvernig tilfinning skyldi það vera að ná svo miklum vinsældum á frekar stuttum tíma?
„Það er bara algjör rússíbani. Ég er svo þakklát og hamingjusöm og samtímis er ég að venjast því að lífið mitt er búið að breytast mjög mikið mjög hratt. Það er alltaf smá áskorun. Mér þykir mjög vænt um það að lögin mín séu að koma sér fyrir í hjörtum landsmanna, það gleður mig meira en orð fá lýst.“
Og það eru sannarlega spennandi tímar framundan hjá þessari ungu tónlistarkonu. „Á næsta ári gef ég út plötu í fullri lengd og ýmis önnur spennandi verkefni taka við eftir áramótin. Lífið er endalaus óvissuferð og veisla og ég býð fólk bara velkomið með mér.“
Það voru Jóhanna Guðrún, Klara Elías og Friðrik Dór sem komu fram á fyrstu þremur tónleikunum í tónleikaröðinni. Næsta fimmtudag heldur Ragga Gísla tónleika og Jónas Sig í vikunni þar á eftir. Lokaþátturinn er sérstakur jólaþáttur sem sýndur verður 16. desember.
Næstu tónleikar í tónleikaröðinni Bylgjan órafmögnuð:
30. nóvember: Ragga Gísla
7. desember: Jónas Sig
16. desember: Jólaþáttur með öllum söngvurunum
Allir tónleikar í tónleikaröðin Bylgjan órafmögnuð hefjast á kl. 20 á Bylgjunni, Vísi og sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi.
Hér er hægt að skoða eldri upptökur frá Bylgjan órafmögnuð.