Fótbolti

Vinícius Júni­or frá keppni þangað til á næsta ári

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður frá keppni næstu 10 vikurnar.
Verður frá keppni næstu 10 vikurnar. Jairo Cassiani/Getty Images

Brasilíski framherjinn Vinícius Júnior, leikmaður Real Madríd, verður frá keppni þangað til á næsta ári eftir að meiðast á læri í 2-1 tapi Brasilíu gegn Kólumbíu.

Samkvæmt The Athletic þá meiddist Vini Jr. á vinstra læri og verður frá keppni næstu tíu vikurnar. Fyrr á tímabilinu glímdi hann við svipuð meiðsli á hægra læri en var þá aðeins frá í fjórar vikur.

Það er ljóst að Real Madríd mun sakna hins 23 ára gamla Brasilíumanns sem hefur skorað fjögur mörk og gefið eina stoðsendingu í 10 deildarleikjum á Spáni. Þá hefur Vini Jr. skorað tvö og lagt upp þrjú í þremur leikjum í Meistaradeildinni.

Vinícius Júnior var nýverið verðlaunaður fyrir frábæra frammistöðu á síðustu leiktíð með nýjum samning við Real til ársins 2027. Hann skoraði 23 mörk og gaf 21 stoðsendingu á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×