Um­fjöllun og við­töl: Stjarnan - Haukar 77-75 | Stjarnan á skriði eftir nauman sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ísold Sævarsdóttir skoraði tíu stig fyrir Stjörnuna í dag.
Ísold Sævarsdóttir skoraði tíu stig fyrir Stjörnuna í dag. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan vann nauman tveggja stiga sigur er liðið tók á móti Haukum í Subway-deild kvenna í körfubolta í dag, 77-75. Þetta var fjórða tap Hauka í röð, en Stjörnukonur hafa nú unnið þrjá í röð.

Leikurinn fór nokkuð hægt af stað og báðum liðum gekk erfiðlega að koma stigum á töfluna. Heimakonur voru þó fyrri til að finna taktinn og sigldu fram úr eftir því sem á leið á fyrsta leikhlutann. Mest náði liðið tíu stiga forskoti í stöðunni 15-5, en munurinn á liðunum að loknum fyrsta leikhluta var sjö stig, staðan 16-9.

Haukakonur vöknuðu þó heldur betur til lífsins í öðrum leikhluta og voru ekki lengi að éta upp forskot Stjörnunnar. Skotnýting gestanna fyrir utan þriggja stiga línuna hafði verið nákvæmlega engin í fyrsta leikhluta, en nú settu þær niður þrjá þrista strax í upphafi annars leikhluta og náðu foryustunni í stöðunni 19-20.

Gestirnir héldu forskoti sínu út leikhlutann og fóru með tveggja stiga forskot inn í hálfleikshléið, 31-33.

Í þriðja leikhluta kviknaði svo heldur betur á liðunum og boðið var upp á sannkallaða skotsýningu. Haukar höfðu þó yfirhöndina í skotkeppninni og um tíma virtist liðið einfaldlega ekki geta klikkað, sama hvaðan skotin komu.

Heimakonur gerðu þó vel að halda sér innan seilingar frá gestunum og liðið klóraði vel í bakkann fyrir lokaleikhlutann. Aðeins tvö stig skildu liðin að fyrir fjórða leikhluta, staðan 68-70.

Spennan hélt svo bara áfram í fjórða leikhluta og munurinn á liðunum varð aldrei meiri en fimm stig. Bæði lið virtust finna fyrir pressunni og nokkuð var um tapaða bolta, en Katarzyna Trzeciak setti niður þrist fyrir Stjörnuna þegar tæp mínúta var eftir og kom stöðunni í 77-72.

Lovísa Björt Henningsdóttir svaraði í sömu mynt fyrir Hauka á hinum endanum áður en Denia Davis-Stewart klikkaði á tveimur vítum fyrir Stjörnuna þegar um 15 sekúndur voru eftir og Haukar því enn á lífi. Gestirnir náðu þó ekki að nýta sér sína síðustu sókn og það voru því heimakonur í Stjörnunni sem fögnuðu tveggja stiga sigri, 77-75.

Stjarnan hefur nú unnið þrjá leiki í röð í Subway-deild kvenna og það sem meira er að liðið hefur unnið fimm af seinustu sex deildarleikjum sínum og er með tíu stig eftir átta umferðir. Stðan er hins vegar önnur hjá Haukum sem hafa tapað fjórum í röð og fimm af seinustu sex. 

Af hverju vann Stjarnan?

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var með ágætis útskýringu á því af hverju sigurinn hafi endað Stjörnumegin í viðtali eftir leik þegar hann nefndi frákastabaráttuna. Stjörnukonur tóku 56 fráköst gegn 34 fráköstum Hauka.

Hverjar stóðu upp úr?

Kolbrún María Ármannsdóttir átti góðan leik fyrir Stjörnuna og skoraði 22 stig fyrir liðið, ásamt því að taka 12 fráköst og gefa þrjár stoðsendingar. 

Í liði Hauka var Tinna Alexandersdóttir atkvæðamest með 20 stig og Anna Soffía Lárusdóttir skilaði 17 stigum af bekknum.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk afar illa að koma stigum á töfluna í fyrri hálfleik, en fundu þó taktinn eftir hlé. Þegar á reyndi var einnig nokkuð um tapaða bolta á báða bóga og er það líklega eitthvað sem þjálfarar liðanna vilja halda í lágmarki.

Hvað gerist næst?

Bæði lið leika næst á þriðjudaginn í Subway-deild kvenna þegar Stjarnan tekur á móti Grindvíkingum klukkan 18:15 og Haukar sækja Fjölni heim klukkutíma síðar.

Auður: „Þetta var bara geggjað, svona á þetta að vera“

Auður Íris Ólafsdóttir, annar af þjálfurum Stjörnunnar, var eðlilega sátt með sigur liðsins í dag.

„Ég get ekki sagt að ég hafi verið róleg allan tíman. Við vorum kærulausar og andlausar í byrjun miðað við okkar leik. Haukarnir voru frábærir í dag og þetta var skemmtilegur leikur,“ sagði Auður að leik loknum.

Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið kaflaskiptur, en Stjörnukonur höfðu tak á leiknum í fyrsta leikhluta áður en Haukar tóku völdin í öðrum leikhluta. Eftir hálfleikshléið buðu liðin svo upp á skotsýningu og Stjörnukonur snéru svo taflinu sér í hag í lokaleikhlutanum.

„Þetta var bara geggjað, svona á þetta að vera,“ sagði Auður og bætti við að það hafi verið mikilvægt að sitt lið hafi haldið vel á spöðunum sóknarlega til að halda í við sjóðheita Hauka í þriðja leikhluta.

„Við vorum að gera vel sóknarlega þó að Haukarnir hafi verið að setja upp algjöra skotsýningu. Við erum skrefi á eftir sem var ekki alveg uppleggið hjá okkur, en stelpurnar eru þannig að þær hætta aldrei í þessu Stjörnuliði og það er það sem skilar sigrinum.“

Stjarnan byrjaði veturinn á því að tapa fyrstu tveimur leikjum tímabilsins, en síðan þá hefur liðið unnið fimm af sex deildarleikjum. Auður segir að nýliðarnir séu mættir til að taka þátt og keppa í deild þeirra bestu.

„Klárlega. Maður kemur hérna til að taka þátt og við setjum markið hátt,“ sagði Auður að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira