Lífið

Eurovision-keppnin komin með varan­legt slag­orð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sænska söngkonan Loreen kom, sá og sigraði Eurovision söngvakeppnina í Liverpool í ár.
Sænska söngkonan Loreen kom, sá og sigraði Eurovision söngvakeppnina í Liverpool í ár. Roberto Ricciuti/Redferns/Getty

Eurovision söngvakeppnin er komin með varanlegt slagorð í fyrsta sinn. Slagorðið er „Sameinuð af tónlist“ (e. United By Music). Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU).

Þar segir að andi Eurovision keppninnar í Liverpool í ár muni lifa áfram með slagorðinu. Andinn muni fylgja keppninni frá Merseyside í Liverpool til Malmö í Svíþóð þar sem keppnin verður haldin á næsta ári.

Fram kemur að slagorðið sé komið úr smiðju breska ríkisútvarpsins sem hafi með því viljað leggja áherslu á samband Bretland og Úkraínu. Landið hélt Eurovision söngvakeppnina í stað Úkraínu vegna innrásar Rússa í landið og stríðið sem þar er nú í gangi.

Áður höfðu gestgjafar hvers árs valið nýtt slagorð í hvert einasta sinn og hefur sú hefð haldist frá árinu 2002 og þar til nú. Undantekningin er árið 2009 þegar ekkert slagorð fylgdi keppninni.

„Eurovision söngvakeppnin er meira en bara söngvakeppni: Hún er hátíð þar sem við fögnum sameiningarkrafti tónlistarinnar,“ segir Martin Österdahl, framkvæmdastjóri keppninnar.

„Eftir meira en tuttugu ár þar sem við höfum notað mismunandi slagorð, finnst okkur við hafa fundið eitt sem nær svo sannarlega utan um það sem keppnin snýst um,“ segir Martin og bætir því við að stutt sé í sjötíu ára afmæli keppninnar. Keppnin var haldin í fyrsta sinn árið 1956.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.