Fótbolti

Sjálfs­mark Loga gaf Brynjari Inga og fé­lögum þrjú stig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Logi Tómasson í leik með Strømsgodset.
Logi Tómasson í leik með Strømsgodset. Strømsgodset Fotball

Logi Tómasson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í 0-1 tapi Strømsgodset gegn HamKam í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Logi spilaði allan leikinn í vinstri vængbakverði Strømsgodset og varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 49. mínútu leiksins. Reyndist það eina mark leiksins en gestirnir í HamKam komu boltanum í netið á 72. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Ari Leifsson lék allan leikinn í vörn heimamanna og það gerði Brynjar Ingi Bjarnason einnig í vörn gestanna á meðan Viðar Ari Jónsson sat allan tímann á varamannabekk liðsins.

Strømsgodset er í 8. sæti með 36 stig í 8. sæti að loknum 28 leikjum á meðan HamKam er í 11. sæti með 33 stig.

Þó stóð Patrik Sigurður Gunnarsson vaktina í marki Viking þegar liðið vann Sarpsborg 08 2-1. Viking er í 4. sæti með 55 stig, þremur minna en Brann sem situr í 2. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×