Körfubolti

„Leið eins og jörðin myndi brotna og taka okkur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dani Rodriguez í leik með Grindavík.
Dani Rodriguez í leik með Grindavík. Vísir/Vilhelm

Dani Rodriguez leikmaður Grindavíkur í körfuknattleik lýsir ógnvænlegum aðstæðum þegar hún og unnusta hennar voru á leið frá Grindavík á föstudagskvöld. Hún segist aldrei hafa verið jafn hrædd á ævinni.

Dani Rodriguez er á sínu öðru tímabili með Grindavík í Subway-deild kvenna. Hún hefur leikið hér á landi í fjölmörg ár og var áður á mála hjá KR og Stjörnunni. Þá hefur hún einnig komið að þjálfun yngri landsliða Íslands og verið í þjálfarateymi A-landsliðs kvenna.

Þegar íbúar Grindavíkur voru í óða önn að yfirgefa heimili sín á föstudag var Dani sjálf stödd í Grindavík. Hún greinir frá atburðarásinni í kjölfarið á samfélagsmiðlinum X og er óhætt að segja að um dramatíska frásögn sé að ræða.

„Brjálæðið byrjaði þegar við vorum á æfingu og þá voru stanslausir jarðskjálftar af stærð fjögur og fimm. Þjálfarinn okkar ákvað að hætta æfingunni eftir 45 mínútur. Þegar við vorum að keyra báða bíla okkar út úr bænum bilaði annar þeirra þannig að við keyrðum út í kant til að ræða um hvar við myndum skilja hann eftir. Ég fór út úr bílnum og hallaði mér að hinum bílnum og var að ræða við kærustuna mína,“ skrifar Dani en hún og kærasta hennar búa í Reykjanesbæ.

„Ég hef aldrei orðið jafn hrædd á ævi minni eins og á þessu augnabliki. Jörðin undir mér hristist svo mikið að ég varð að halda mér í bílinn. Ég sver til guðs að ég hélt í um það bil hálfa mínútu að jörðin myndi brotna og taka okkur báðar.“

Dani segir að þær hafi ákveðið að keyra bilaða bílinn aftur til Grindavíkur og skilja hann eftir. Í annarri tilraun sinni að yfirgefa bæinn tóku þær eftir stærðarinnar bungu á Grindavíkurveginum og þurftu að fara aðra leið út úr bænum.

Hún segist fegin að vera komin í öruggt skjól og segir að fólkið í Grindavík hafi tekið sig að sér sem hluta af fjölskyldu.

„Ég er sorgmædd að vera jafn óviss um hvað mun gerast á næstu dögum og vikum.“

Í færslu Dani Rodriguez má sjá bæði myndir og myndband frá ferð þeirra út úr Grindavík á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×