Eins og Vísir greindi frá kynnti ríkisstjórnin frumvarp í gær um vernd innviða á Reykjanesskaga, sem birt var á vef Alþingis. Þar er meðal annars kveðið á um að reistir verði varnargarðar og lagt á svokallað forvarnargjald á allar húseignir.
Eins og fram hefur komið munu sérfræðingar hjá almannavörnum, aðgerðarstjórnum og Veðurstofunni funda um stöðuna í Grindavík kl. 09:30 í dag. Staðan breyttist lítið í nótt, verulega hefur dregið úr skjálftavirkni en enn eru taldar líkur á að kvika nái að brjóta sér leið til yfirborðs.
Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að gosórói sjáist á mælum áður en eldgos hefst. Líkön sýna fimmtán kílómetra langan kvikugang sem liggur rétt norðvestan Grindavíkur. Samkvæmt gögnum gærdagsins lá kvikan á um 800 metra dýpi þar sem hún er grynnst.