Fyrr í dag var greint frá því að Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Lyngby, gæti ekki gefið kost á sér í komandi leiki vegna meiðsla. Í hans stað kemur samherji hans hjá Lyngby í Danmörku, framherjinn Andri Lucas Guðjohnsen, inn í hópinn en hann var upprunalega í U-21 árs landsliðshóp Íslands.
Nú hefur verið greint frá því að Mikael Anderson, leikmaður AGF í Danmörku, hafi einnig þurft að draga sig úr hópnum. Í hans stað kemur nafni hans Mikael Egill sem var líkt og Andri Lucas í hóp U-21 árs landsliðsins. Mikael Egill á að baki 13 A-landsleiki og hefur skorað í þeim eitt mark.
Ísland mætir Slóvakíu þann 16. nóvember og Portúgal þremur dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram á útivelli og um er að ræða síðustu tvo leiki Íslands í undankeppninni fyrir EM 2024.
Mikael Neville Anderson er einnig meiddur og í hans stað kemur Mikael Egill Ellertsson. pic.twitter.com/R24VNAaiNV
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) November 10, 2023
Portúgal er í 1. sæti með fullt hús stiga, Slóvakía kemur þar á eftir með 16 stig á meðan Ísland er í 4. sæti með 10 stig.