Körfubolti

Kári hefur aldrei verið í tapliði í KFUM-slagnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Jónsson fagnar sigri með Valsmönnum.
Kári Jónsson fagnar sigri með Valsmönnum. Vísir/Bára

Kári Jónsson er uppalinn Haukamaður en hann spilar í dag með Val. Kári hefur aldrei upplifað það að vera í tapliði í úrvalsdeildinni þegar þessi tvö lið mætast.

Haukar taka á móti Kára og Valsmönnum í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 19.15.

Undir í kvöld er sú staðreynd að Kári hefur aldrei verið í tapliði í KFUM-slagnum svonefnda. Séra Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM, kom að stofnun beggja félaga.

Kári hefur alls spilað sex sinnum í leik Vals og Hauka og liðið með Kára hefur unnið í öll sex skiptin.

Fjórum sinnum hefur hann fagnað sigri með Haukum á móti Val en í síðustu tveimur leikjum hefur hann hjálpað Val að vinna Hauka.

Í síðustu fjórum leikjum sínum þegar þessi lið hafa mæst þá hefur Kári skorað 26,0 stig og gefið 6,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hefur skorað yfir tuttugu stig í þeim öllum og hefur verið algjör lykilmaður í að landa sigrinum.

Kári hefur líka hækkað þriggja stiga skotnýtingu sína með hverjum leik en hún hefur verið í réttri röð, 0%, 20%, 25%, 29%, 33% og loks 43% í síðasta leik þar sem hann skoraði sex þriggja stiga körfur.

  • Sex leikir Kára Jónssonar í viðureign Hauka og Vals
  • 2013 með Haukum á móti Val: 15 stiga sigur, 85-70 (Kári með 4 stig)
  • 2014 með Haukum á móti Val: 32 stiga sigur, 92-60 (Kári með 5 stig)
  • 2017 með Haukum á móti Val: 15 stiga sigur, 101-86 (Kári með 24 stig)
  • 2019 með Haukum á móti Val: 16 stiga sigur, 94-78 (Kári með 21 stig)
  • 2022 með Val á móti Haukum: 10 stiga sigur, 87-77 (Kári með 28 stig)
  • 2023 með Val á móti Haukum: 8 stiga sigur, 84-76 (Kári með 31 stig)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×