Fótbolti

Fjórir leik­menn sau­tján ára landsliðs Pól­verja reknir heim fyrir fyllerí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn sautján ára landsliðs Póllands fagna hér sigri á EM fyrr á þessu ári.
Leikmenn sautján ára landsliðs Póllands fagna hér sigri á EM fyrr á þessu ári. Getty/Ben McShan

Pólland er eitt af þeim knattspyrnuþjóðum sem eru að fara að keppa um heimsmeistaratitil sautján ára landsliða á næstunni en keppnin byrjar hræðilega fyrir Pólverja.

Fjórir liðsmenn pólska liðsins voru reknir heim eftir að hafa farið á fyllerí sem var að sjálfsögðu í leyfisleysi.

Þetta gerist aðeins nokkrum dögum fyrir fyrsta leik Póllands á mótinu sem fram fer í Indónesíu. Fyrsti leikurinn er á móti Japan á laugardaginn.

Í fylleríinu varð einn leikmaðurinn meðal annars fyrir því óláni að detta illa og fá skurð á höfuðið.

Alþjóða knattspyrnusambandið mun þó ekki veita Pólverjum undanþágu til að geta kallað á nýja leikmenn í staðinn.

Pólska liðið verður því aðeins með fjórtán útileikmenn á mótinu í stað átján.

Marcin Wlodarski, þjálfari pólska liðsins, segir að þetta sé mikið áfall fyrir hann sjálfan.

„Okkur hefur mistekist því við viljum líka ala þessa drengi rétt upp. Við eyðum miklum tíma með þeim og ég sé þetta sem áfall fyrir mig persónulega,“ sagði Wlodarski við Goal.pl.

Þetta er í fyrsta sinn frá 1999 sem Pólverjar komst með sautján ára landsliðið sitt alla leið inn í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins en best hafa þeir náð fjórða sæti árið 1993.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×