New York Times fjallar um fyrirhugaða ræðu Karls, en þar er því haldið fram að hún sé prófraun fyrir konunginn. Mun honum takast að gefa til kynna pólitískt hlutleysi, líkt og móðir hans Elísabet drottning var fræg fyrir?
Það er forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, sem gerir uppkast að ræðunni sem konungurinn flytur í kjölfarið. Farið verður yfir ýmis stefnumál ríkisstjórnarinnar á komandi þingi. Þar á meðal eru atriði er varða umhverfismál.
Á stefnu ríkisstjórnarinnar er að hagnýta olíu og gas Bretlands á Norðursjó í meira mæli. Ákvörðunin hefur reitt marga umhverfisaktívista til reiði.
Í umfjöllun New York Times er bent á að Karl konungur sé yfirlýstur umhverfissinni. Hann hefur í raun verið það frá árinu 1970, en þá var hann rúmlega tvítugur.
Síðast í september fór Karl með ræðu í Frakklandi þar sem hann kallaði eftir miklu átaki í umhverfismálum. „Við verðum að standa saman og vernda heiminn frá stærstu ógn veraldar: hnattrænni hlýnun og hræðilegri tortímingu náttúrunnar,“ sagði Karl.
Þrátt fyrir þetta er búist við því að Karl muni þurfa að halda andliti og halda hefðbundna ræðu konungsborins þjóðhöfðingja Bretlands. Hingað til bendi valdatíð Karls til þess að hann vilji reyna eftir fremsta megni að vera hlutlaus í pólitískum skilningi.
Líkt og áður segir fylgja þessu ræðuhöld þjóðhöfðingjans langri hefð í breskum stjórnmálum. Ræða Karls verður sú fyrsta sem hann heldur sem konungur, en talið er að hún verði sú síðasta fram að næstu þingkosningum, sem verða líklega í janúar 2025.
Elísabet hélt 67 ræður sem þessar á valdatíð sinni. Þess má þó geta að í maí 2022 hélt Karl ræðuna fyrir hönd móður sinnar, sem gat það ekki vegna versnandi heilsu hennar.