Enski boltinn

Segir yfir­lýsingu Arsenal hættu­lega

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Gordon skorar sigurmark Newcastle United gegn Arsenal. Það var umdeilt í meira lagi.
Anthony Gordon skorar sigurmark Newcastle United gegn Arsenal. Það var umdeilt í meira lagi. getty/Stu Forster

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og fótboltasérfræðingur Sky Sports, telur að yfirlýsing Arsenal vegna dómgæslu sé hættuleg.

Eftir 1-0 tapið fyrir Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn gagnrýndi Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, dómgæsluna harðlega. Mark Newcastle var dæmt gilt eftir að hafa verið margskoðað á myndbandi.

Arsenal tók svo undir gagnrýni hans í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér daginn eftir.

„Arsenal styður heilshugar ummæli Mikel Arteta eftir leik vegna óásættanlegrar dómgæslu og mistaka í VAR dómgæslunni á laugardagskvöld,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Enska úrvalsdeildin er sú fremsta í heiminum, með bestu leikmennina, þjálfarana og stuðningsmenninna, sem allir eiga skilið betur. Dómarasamtökin þurfa nauðsynlega að bæta úr dómgæslu og grípa til aðgerða svo forðast megi endalausar eftir á skýringar og afsökunarbeiðnir.“

Liverpool sendi frá sér svipaða yfirlýsingu fyrir nokkrum vikum eftir leik gegn Tottenham. Neville telur yfirlýsingar sem þessar skaðlegar.

„Mér fannst yfirlýsing Liverpool nokkuð hættuleg sem og yfirlýsing Arsenal,“ sagði Neville á Sky Sports í gær. Hann segir að enska úrvalsdeildin verði að vernda dómara.

„Félög verða að hegða sér betur í þessum aðstæðum og ég horfi á ensku úrvalsdeildina, sérstaklega forystu hennar, því við verðum að byrja að vernda dómara. Til að byrja með var ég mjög spenntur fyrir auknu gagnsæi og því að dómarar útskýrðu ákvarðanir sínar.“

Neville segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með Arsenal í þessu máli.

„Arsenal er félag með mikla sögu og ætti að hegða sér betur. Þeir eiga eftir að sjá eftir þessari yfirlýsingu eftir nokkur ár,“ sagði Neville.

Arsenal er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig, þremur stigum á eftir toppliði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×