Fótbolti

Draga lið sitt úr keppni í efstu deild á Ítalíu í mót­mæla­skyni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Juventus á móti Pomigliano.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Juventus á móti Pomigliano. Getty/ Juventus FC

Kvennalið Pomigliano, sem spilar í efstu deild á Ítalíu, hefur dregið lið sitt úr keppni eftir aðeins sex leiki.

Ástæða þessa er að félagið er að mótmæla því mótlæti sem félagið telur sig vera að glíma við í leikjum liðsins.

Forráðamenn félagsins segja að félagið sé „að berjast á móti ósýnilegum mótherjum sem taka frá þeim orku og löngun til að halda áfram.“

Pomigliano hafði aðeins spilað sex leiki á tímabilinu og þessi yfirlýsing kemur eftir að liðið tapaði leik 0-1 á móti Sampdoria í gær þar sem sigurmark Sampdoria kom úr vítaspyrnu.

Félagið sendi ítalska blaðinu Tuttosport yfirlýsingu þar sem félagið gagnrýndi skipulag deildarinnar, stjórnun fjármála hennar og frammistöðu dómara.

„Að berjast gegn öllum mögulegum mótherjum gerir þetta að vonlausu verkefni,“ sagði í yfirlýsingunni.

Sería A hjá konunum var gerð að fullri atvinnumannadeild fyrir 2022-23 tímabilið en í deildinni eru tíu lið. Ef Pomigliano stendur við þessa hótun þá er ekki ljóst hvernig framhaldið verður spilað.

Pomigliano er ekki í neðsta sætinu en liðið hefur fengið eitt stig út úr þessum sex leikjum. Markatalan er aftur á móti þrettán mörk í mínus. Napoli situr stigalaust á botninum.

Eina stig Pomigliano kom í 1-1 jafntefli við Sassuolo á útivelli í byrjun október. Síðan þá hefur liðið tapað fjórum deildarleikjum í röð og dottið út úr bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×