Innlent

Burðar­dýr dæmt fyrir kókaín­inn­flutning

Atli Ísleifsson skrifar
Konan játaði skýlaust brot sín.
Konan játaði skýlaust brot sín. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt erlenda konu í átján mánaða fangelsi fyrir að hafa flutt um 900 grömm af kókaíni til landsins með flugi. Konan var ekki eigandi efnanna og hafði samþykkt að flytja þau til landsins gegn greiðslu.

Konan var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa flutt efnin til landsins, falin innvortis, með flugi til landsins laugardaginn 26. ágúst síðastliðinn.

Í dómi er ekki tekið fram ríkisfang konunnar eða hvaðan flugvélin var að koma. Styrkleiki efnanna var 51 til 78 prósent og var talið að þau hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi.

Konan játaði skýlaust brot sín. Í dómi segir að af rannsóknargögnum málsins verði ekki séð að konan hafi verið eigandi fíkniefnanna eða skipuleggjandi innflutningsins en hefði samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Dómara í málinu þótti hæfileg refsing vera átján mánaða fangelsi, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem konan sætti eftir handtöku við komuna til landsins.

Konunni var jafnframt gert að greiða 1,3 milljónir króna í sakarkostnað, þar með talda 650 þúsund króna þóknun til skipaðs verjanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×