Erlent

Segir John­son hafa spurt hvort „hárblásari“ dygði gegn Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Cummings hefur verið afar gagnrýninn á Johnson en er sjálfur verið afar umdeildur.
Cummings hefur verið afar gagnrýninn á Johnson en er sjálfur verið afar umdeildur. AP/PA/James Manning

Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, spurði vísindamennina Chris Witty og Patrick Vallance að því hvort hægt væri að útrýma SARS-CoV-2, veirunni sem veldur Covid-19, með „sérstökum hárblásara“.

Þetta kemur fram í vitnisburði Dominic Cummings, sem þá var helsti ráðgjafi Johnson, til nefndar sem rannsakar framgöngu stjórnvalda á Bretlandseyjum í kórónuveirufaraldrinum.

Cummings sagði augnablikið hafa verið dapurlegt en Johnson hafi sent YouTube-myndskeið á vísindamennina þar sem maður sést nota einhvers konar blásara til að blása upp í nefið á sér og innt þá álits.

Eftir að Cummings var látinn fara hefur hann verið duglegur við að gagnrýna forsætisráðherrann fyrrverandi og greinir einnig frá því í vitnisburði sínum að Johnson hafi beðið hann um að finna „dauðan kött“ til að koma fréttum af Covid-19 af síðum dagblaðanna, þar sem hann var orðinn hundleiður á þeim.

„Dauður köttur“ er í þessu samhengi eitthvað fjaðrafok sem Cummings átti að stofna til til að beina athygli fjölmiðla annað.

Cummings segir í vitnisburðinum að Johnson hafi verið mjög annars hugar þessi misserin; hann hafi verið að vinna að ævisögu Shakespeare og átt í fjárhagslegum erfiðleikum vegna skilnaðar sem hann var að ganga í gegnum og endurbóta sem þáverandi kærastan hans var að láta gera á forsætisráðherrabústaðnum.

Þá var fyrrverandi kærasta hans að gagnrýna hann í fjölmiðlum.

Cummings segir stjórnvöldum hafa gjörsamlega mistekist í faraldrinum og að viðkvæmir hópar hefðu verið algjörlega vanræktir þegar gripið var til aðgerða á borð við útgöngubann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×