Fótbolti

Gáfu Messi átta gullhringa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með gullhringina átta sem hann fékk frá Adidas.
Lionel Messi með gullhringina átta sem hann fékk frá Adidas. @adidasfootball

Lionel Messi var á mánudagskvöldið verðlaunaður með sínum áttunda Gullhnetti á ferlinum sem besti knattspyrnumaður ársins. Franska blaðið France Football stendur fyrir Ballon d'Or verðlaununum og hefur gert frá árinu 1956.

Messi fékk verðlaunin fyrst og fremst fyrir það að hafa leitt Argentínu til sigurs á heimsmeistaramótinu í Katar þar sem hann skoraði sjö mörk og var valinn besti leikmaður mótsins. Hann vann einnig titilinn með Paris Saint Germain og endaði tímabilið síðan með Inter Miami.

Hinn 36 ára gamli var að vinna þessi verðlaun í áttunda skiptið á ferlinum en enginn annar hefur unnið fleiri en fimm Gullhnetti.

Í hvert skipti hefur Messi fengið stórglæsilegan gullhnött sem fara nú langt með að fylla stofuna hjá honum.

Adidas ákvað að gera gott betur og í tilefni af því að Messi er kominn til Bandaríkjanna þá var farin bandaríska leiðin.

Adidas gaf honum átta sérhannaða gullhringa en hver þeirra stendur fyrir eitt af árunum átta þar sem Messi hefur verið kosinn bestur.

Messi fékk þessi verðlaun fyrst 22 ára gamall árið 2009 en hefur einnig unnið þau 2010, 2011, 2012, 2015, 2019, 2021 og svo í ár.

Hér fyrir neðan má sjá Messi fá gullhringana afhenta. Þar má einnig sjá myndir af hverjum hring fyrir sig.

Kannski þarf að endurhlaða fréttina til að sjá myndirnar úr Instagram færslum um gullhringa Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×