Um­fjöllun og við­töl: Grinda­vík - Kefla­vík 78-80 | Há­spenna lífs­hætta í toppslagnum

Siggeir Ævarsson skrifar
Birna Benónýsdóttir átti frábæran leik í kvöld.
Birna Benónýsdóttir átti frábæran leik í kvöld. vísir/hulda margrét

Grindavíg og Keflavík, tvö efstu lið Subway-deildar kvenna, áttust við í toppslag deildarinnar í kvöld. Gestirnir höfðu að lokum betur í háspennuleik, 78-80.

Leikurinn fór nokkuð stirðlega af stað og virtist vera einhver skjálfti í leikmönnum liðanna, sem er kannski eðlilegt miðað við jarðhræringar síðustu daga á Reykjanesskaganum. Grindavíkurkonur byrjuðu betur og komust í 9-2 strax í byrjun en þá hrukku gestirnir loks í gírinn og var jafnt á öllum tölum, 23-23 eftir fyrsta leikhluta.

Keflvíkingar enduðu hálfleikinn svo á eins góðan hátt og á var kosið. Í stað þess að Grindavík minnkaði muninn þá var dæmd sóknarvilla á Dani Rodriguez og Keflvíkingar fengu eina aukasókn sem endaði með þristi frá Birnu sem var ekkert nema net.

Keflvíkingar voru ívið sterkari lungann úr leiknum en Grindvíkingar létu það ekki slá sig út af laginu og í hvert sinn sem gestirnir hlóðu í smá forskot komu Grindvíkingar tvíefldir til baka. Þær kroppuðu forskotið alltaf niður og undir lokin var þetta einfaldlega galopinn leikur. 

Þá fór allt í handaskolum hjá Grindavík varnarmegin og villurnar hrúguðust inn, margar hverjar ansi ódýrar að sjá ofan úr blaðamannastúkunni en Grindavík braut alls sjö sinnum af sér í 4. leikhluta en Keflavík aðeins einu sinni. 

Keflvíkingar héldu sér skrefinu á undan af vítalínunni en Hekla Eik Nökkvadóttir jafnaði leikinn 78-78 með þristi og um 40 sekúndur eftir. Í kjölfarið komu dýrkeypustu varnarmistök leiksins þar sem Birna Benónýsdóttir endaði alein undir körfunni og skoraði sigurkörfu leiksins.

Grindavík fékk lokasókn leiksins og tólf sekúndur til að framkvæma hana en Keflvíkingar stóðu vörnina vel og Eve Braslis endaði á að fara í erfitt skot sem geigaði.

Keflvíkingar sluppu því með skrekkinn í Grindavík í kvöld og eru enn taplausar á toppi deildarinnar, í leik sem hefði í raun getað farið á hvorn veginn sem er í lokin.

Af hverju vann Keflavík?

Það má mögulega skrifa þennan sigur á seigluna og reynslu. Þær stóðu vörnina í lokin þegar Grindavík hefði getað sent leikinn í framlengingu eða stolið sigrinum og lönduðu stigunum tveimur í kvöld.

Hverjar stóðu upp úr?

Keflvíkingar hafa oft fengið mikið framlag frá mörgum leikmönnum í vetur en í kvöld voru tveir leikmenn í algjörum sérflokki. Daniela Wallen skoraði 23 stig, tók 13 fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal sjö boltum og var sérstaklega öflug undir lokin þegar á reyndi og Keflavík þurfti á körfum að halda. Þessi frammistaða skilaði 43 framlagsstigum í hús.

Þá var Birna Benónýsdóttir einnig með 23 stig og var 4/6 í þristum. Á einhvern ótrúlegan hátt náði miðherjinn hávaxni þó aðeins í eitt frákast.

Hjá Grindavík dreifðist stigaskorið meira en erlendu leikmenn liðsins þurftu að verja drjúgum tíma á bekknum í villuvandræðum. Allir byrjunarliðsmenn Grindavíkur skoruðu tíu stig eða meira en Dani Rodriguez og Hulda Björk Ólafsdóttir voru stigahæstar með 15 stig. Dani bætti svo við laufléttum 18 fráköstum, en Grindavík vann frákastabaráttuna í kvöld 48-30.

Hvað gekk illa? 

Grindvíkingum gekk illa að passa upp á boltann í kvöld. 21 tapaður bolti og þeir voru í öllum regnbogans litum. Dýrt á móti jafn fljótu liði og Keflavík í jöfnum leik.

Hvað gerist næst?

Eftir leik Fjölnis og Njarðvíkur á morgun tekur við landsleikjapása. Grindavík á næst leik 19. nóvember þar sem liðið tekur á móti nýliðum Þórs frá Akureyri og sama kvöld tekur Keflavík á móti Íslandsmeisturum Vals.

Sverrir Þór: „Alltaf sterkt að vinna jafna leiki“

Sverrir Þór getur ekki verið annað en sáttur með startið hjá Keflavík í deildinniVísir/Bára Dröfn

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var ekki endilega sannfærður um fullyrðingu blaðamanns að hans konur hefðu sloppið með skrekkinn í þessum háspennuleik.

„Þetta snýst bara um að klára þetta. Ég veit ekki hvort við sluppum með skrekkinn. Við hefðum átt að vera búnar að landa þessu fyrr. Við vorum komnar í stöðu til að loka þessu að minnsta kosti tvisvar og gerum ekki nógu vel. Þær komast nær og eru að setja stór skot. En mér fannst bara geggjað að klára þetta. „Alltaf sterkt að vinna jafna leiki.“

Tveir leikmenn Keflavíkur báru af í stigaskori í kvöld og vakti skotvissi Birnu Benónýsdóttur sérstaklega athygli blaðamanns.

„Hún átti hörkuleik og var líka að gera frábærlega varnarlega. Bakverðirnir þeirra að reyna að ráðast á hana og mér fannst hún gera fjandi vel þar plús öll þessi stig. Hún átti frábæran leik.“

Sverrir vildi ekki ekki gera of mikið úr þeim mikla mun sem var á liðsvillum í kvöld en kollegi hans Grindavíkurmegin virtist eiga margt vantalað við dómara leiksins á löngum stundum.

„Auðvitað lítur það alltaf illa út þegar það er einhver rosa villumismunur en þær voru alltaf að elta. Við vorum að ráðast inn í teiginn með boltann og þær að berja meira. Það er alveg eðlilegt í þannig leik að það séu fleiri villur á liðið sem er að reyna að berja sig inn í þetta. En þú veist hvernig Lalli er, hann er alltaf vælandi.“ - sagði Sverrir og hló en þeir Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, þekkjast vel eftir að Sverrir þjálfaði karlalið Grindavíkur með góðum árangri hér um árið.

Þrátt fyrir frábæra byrjun á tímabilinu sagði Sverrir að Keflavík ætti ennþá mikið inni.

„Við erum ekkert að spila besta körfubolta sem við teljum okkar geta, alls ekki. En við erum að gera vel stóran part í leikjunum og ná í sigra sem er jákvætt. En það er rosalega mikið eftir af tímabilinu og við erum að reyna að bæta okkur á öllum sviðum og munum verða það. Nú kemur langt frí og við ætlum okkur að sjálfsögðu að halda áfram að landa alltaf tveimur stigum í hverjum leik.

Það er víst ekki meira í boði í hvert sinn?

„Nei og það er helvíti gott að ná þeim!“ - Sagði Sverrir sáttur og léttur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira