Innlent

„Hvert dauðs­fall meðal al­mennra borgara er einu dauðs­falli of mikið“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. Vísir/Einar

Utanríkisráðherra segir miður að ekki hafi náðst samstaða um að fordæma hryðjuverk á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Krafa Íslands um mannúðarhlé á Gasa sé skýr, þrátt fyrir að Ísland hafi setið hjá þegar atkvæði voru greidd um ályktun Jórdana um slíkt mannúðarhlé.

„Sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna kallaði skýrt eftir mannúðarhléi til að tryggja tafarlausa mannúðaraðstoð til óbreyttra borgara á Gaza á neyðarfundi í gærkvöldi,“ skrifar Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á Facebook í dag. 

Jórdanía lagði í gær fram ályktun um mannúðarhlé á Gasa og 45 lönd studdu hana óbreytta. Kanada lagði til breytingu á tillögunni, sem 88 aðildarríki studdu, en þar var lögð áhersla á fordæmingu Hamas. Breytingartillagan náði ekki fram að ganga.

Upphaflega tillagan var því samþykkt að lokum og greiddu 120 lönd atkvæði með tillögunni. Fjórtán greiddu atkvæði á móti og 45 sátu hjá, þar á meðal Ísland. Noregur var eitt Norðurlanda sem greiddi atkvæði með tillögunni.

Skýr krafa um að farið verði að lögum

Bjarni segir miður að ekki hafi náðst samstaða á þinginu um að fordæma hryðjuverk. 

„Þetta breytir þó ekki skýrri afstöðu Íslands um tafarlaust mannúðarhlé, að komið verði á friði og byggt á tveggja ríkja lausninni. Ísland gerir skýra kröfu til Ísraels um að farið sé að mannúðarlögum.

Fyrir þessu verður áfram talað af fullum þunga. Hvert dauðsfall meðal almennra borgara er einu dauðsfalli of mikið,“ skrifar Bjarni.


Tengdar fréttir

Umfangsmiklar árásir og barist á Gasaströndinni

Ísraelar gerðu í gærkvöldi umfangsmestu loft- og stórskotaliðsárásir á Gasaströndina frá því stríðið milli þeirra og Hamas-samtakanna hófst. Samhliða því var rafmagn, net- og símasamband tekið af svæðinu og hermenn sendir inn.

Ís­land greiddi ekki at­kvæði með til­­lögu um vopna­hlé á Gasa

Ísland sat hjá í atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu sem tekin var fyrir á þingi Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé á Gasa. Noregur var eitt Norðurlanda sem greiddi atkvæði með tillögunni. Utanríkisráðuneytið segir að ekki hafi tekist að ná samstöðu um texta ályktunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×