„Í einu horninu í Friðriksstofu, minningarstofunni um séra Friðrik Friðriksson í húsakynnum KFUM við Holtaveg, er útskorin tréstytta af allsberum smádreng. Þegar ég kom þangað fyrst haustið 2017 veitti ég henni athygli, enda mjög sérstæð, en vissi ekkert um sögu hennar.“
Þetta skrifar Guðmundur Magnússon, höfundur nýrrar ævisögu um séra Friðrik, á síðu sína Skrifhús. Hann segist síðar hafa komist að því að séra Friðrik hafi haldið mjög uppá styttuna og kallað hana Drumb.

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari sem gerði minnisvarða um séra Friðrik og drenginn, sem stendur við Lækjargötu, hafi notað tréstyttuna sem fyrirmynd að drengnum. Sigurjón hafði drenginn þó ekki nakinn heldur í stuttbuxum, „enda allra veðra von við Lækjargötu,“ skrifar Guðmundur.
Ekki er útilokað að styttan af séra Friðriki og drengnum verði færð úr Lækjargötu, en fleiri hafa bæst í hóp þeirra sem vilja styttuna burt eftir að greint var frá því að hann hafi leitað á drengi.
„Hann er mjög óþekkur og fæst ekki til að fara í nokkra spjör“
Þá vitnar Guðmundur í síðasta blaðaviðtalið sem tekið var við séra Friðrik. Viðtalið var birt í Morgunblaðinu daginn fyrir níræðisafmæli hans árið 1958. Þar berst talið að Drumbi.
„Sko, þarna á ég strák,“ á Friðrik að hafa sagt og bent á myndina.
„Tove Ólafsson tálgaði hana og gaf mér. Mér þykir ákaflega vænt um hana. Drengurinn heitir Drumbur. Hann er mjög óþekkur og fæst ekki til að fara í nokkra spjör, og er svo auðvitað alltaf hræddur um, að ég muni skella hann á rassinn. Sjáðu, hvar hann heldur hendinni, við öllu búinn!“
„Krípí shit“
Jón Gnarr birti færslu á samfélagsmiðlum X (áður Twitter) í gær. Þar sagði hann að sú staðreynd „að það sé stytta af nöktu barni í svokallaðri Friðriksstofu hjá KFUM og öllum þar hafi fundist það bara hið eðlilegasta mál, þrátt fyrir umtalið um barnagirnd kallsins,“ finnist honum „eitt mest krípí shit“ sem hann hafi heyrt lengi.
að það sé stytta af nöktu barni í svokallaðri Friðriksstofu hjá KFUM og öllum þar hafi fundist það bara hið eðlilegasta mál, þrátt fyrir umtalið um barnagirnd kallsins finnst mér eitt mest krípí shit sem ég hef heyrt lengi pic.twitter.com/m0qHsC0iW8
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) October 27, 2023