Innlent

Hafa sent HÍ kröfu um endur­greiðslu aftur til 2014

Oddur Ævar Gunnarsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðssfulltrúi SHÍ og Rakel Anna Boulter, forseti SHÍ.
Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðssfulltrúi SHÍ og Rakel Anna Boulter, forseti SHÍ. Vísir

Stúdenta­ráð Há­skóla Ís­lands krefst þess að há­skólinn endur­greiði skráningar­gjöld við skólann sem greidd hafi verið af öllum nem­endum undan­farin ár. Skoða þurfi hve langt aftur krafan nái en hún nái nokkur ár aftur í tímann. Full­trúi Vöku, í minni­hluta í Stúdenta­ráði segist efast um að endur­greiðsla sé það besta fyrir stúdenta.

Stúdenta­ráð hélt blaða­manna­fund vegna málsins í Grósku. Á­frýjunar­nefnd í kæru­málum há­skóla­nema komst að þeirri niður­stöðu í nýjum úr­skurði að sögn Stúdenta­ráðs að eins og sakir stæðu væri ekki grund­völlur fyrir inn­heimtu skrá­setningar­gjalds HÍ.

Jón Atli Bene­dikts­son, rektor Há­skóla Ís­lands, hefur túlkað niður­stöðuna með öðrum hætti. Hann segir hana þá að út­reikningur vissra kostnaðar­liða sem felldir hafa verið undir gjaldið sé ekki full­nægjandi.

Hafa sent kröfu á há­skólann

„Við höfum brugðist við úr­skurðinum með því að senda kröfu á há­skólann og krefja hann um að endur­greiða þessi gjöld sem voru inn­heimt með ó­lög­mætum hætti,“ segir Rakel Anna Boulter, for­seti SHÍ, í sam­tali við frétta­stofu.

Viljið þið að há­skólinn endur­greiði öllum nem­endum, hvernig er út­færslan?

„Já. Nú hefur komið í ljós að þessi gjöld hafa verið inn­heimt með ó­lög­mætum hætti og reiknuð með ó­lög­mætum hætti. Við krefjumst þess, þar sem þeim ber laga­leg skylda til að endur­greiða og þurfa að upp­fylla hana.“

Segir úr­skurð nefndarinnar skýran

Gísli Lauf­eyjar­son Höskulds­son, lána­sjóðs­full­trúi Stúdenta­ráðs, segir að ráðið telji úr­skurð á­frýjunar­nefndar alveg skýran. Ekki sé hægt að túlka hann á neinn annan hátt.

„Úr­skurður nefndarinnar er alveg skýr með það að grund­völlur skrá­setninga­gjaldsins, þær for­sendur sem út­reikningur fjár­hæðarinnar byggir á, standist ekki lög­mætis­reglu stjórn­sýslu­réttarins, það er ekki hægt að túlka það á neinn annan hátt að okkar mati en að þetta brjóti gegn reglum sem gilda um þjónustu­gjöld. Við sjáum ekki neina aðra hlið á þessu máli en að gjöldin séu ó­lög­mæt.“

Þurfi að skoða hve langt aftur endur­greiðslan eigi að ná til

Kemur úr­skurðurinn ekki inn á það að það þurfi að endur­skoða hvernig þetta er á­kvaðrað, þetta gjald?

„Jú, hann gerir það. Hann segir að þegar þessi skrá­setninga­gjöld fyrir þetta ár, sem þetta til­tekna mál varðaði, að þegar þau skrá­setninga­gjöld voru á­kvörðuð, að þá láu ekki þessar for­sendur fyrir,“ segir Gísli.

Ekki sé hægt að fara aftur í tímann og leið­rétta það. Vel megi vera að skrá­setninga­gjöld fyrir næsta ár verði út­færð betur en ekki sé hægt að leið­rétta þau gjöld sem þegar hafi verið inn­heimt.

Viljið þið að há­skólinn endur­greiði öllum frá árinu 2014?

„Það á eftir að skoða hversu langt aftur þetta nær. Það á eftir að skoða það en já það er krafan sem liggur fyrir,“ segir Rakel.

Er það ekki of langt gengið?

„Nei, og þetta varpar bara ljósi á undir­fjár­mögnun opin­berrar há­skóla­menntunar hér á Ís­landi, sem stendur aftar en á Norður­löndunum. Á Norður­löndunum eru ekki skrá­setninga­gjöld sem er ein birtingar­mynd undir­fjár­mögnunar hér­lendis. Það er verið að brúa bil.“

Rakel segist ekki hafa trú á því að ís­lenska ríkið myndi láta þá upp­hæð bitna á þjónustu skólans. Grund­vallar­vanda­málið sé undir­fjár­mögnun há­skólans.

„Þessi gjöld voru inn­heimt með ó­lög­mætum hætti,“ segir Gísli. „Það var brotið á réttindum þeirra sem greiddu þau og við viljum að það sé leið­rétt.“

Efast um að endurgreiðsla sé rétta leiðin

Júlíus Viggó Ólafs­son, full­trúi Vöku í Stúdenta­ráði, er ekki viss um hvort besta lausnin eftir niður­stöðu á­frýjunar­nefndar sé að endur­greiða stúdentum skráningar­gjöld mörg ár aftur í tímann.

„Ef niður­staðan er sú að hluti skrá­setninga­gjaldsins er ó­lög­lega inn­heimtur þá þarf að endur­greiða það,“ segir Júlíus.

„En það sem við höfum á­hyggjur af í þeirri at­burða­rás hér í þessari viku er að það sé eitt­hvað frum­hlaup sem hafi átt sér stað. Við erum að tala um það að í vor vantar há­skólann milljarð í fjár­mögnun og núna að fara fram á kröfu að það verði allt endur­greitt frá 2014 með vöxtum, þá erum við að tala um upp­hæð sem nemur fleiri fleiri milljörðum. Þá er líka spurning hvort sú túlkun standist. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×